Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Brýtur gegn siðareglum kennara

14.02.2012 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Snorri Óskarsson, kennari á Akureyri, hefur með bloggskrifum sínum brotið gegn faglegum siðareglum kennara. Þetta segir forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri.

Skólayfirvöld á Akureyri tóku í gær þá ákvörðun að senda Snorra Óskarsson, kennara við Brekkuskóla, í sex mánaða leyfi á launum vegna mjög svo umdeildra bloggskrifa sinna gegn samkynhneigð. Snorri segist sjálfur aðeins vera að tjá sig um það sem skrifað er í Biblíunni og telur sig hafa fullt frelsi til þess. Sigurður Kristinsson, dósent og forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri, segir afar ósennilegt að Snorri sé að brjóta lög með því að tjá sig með þessum hætti, en spurningin sé hinsvegar sú hvort þessi skrif rúmist innan siðferðis hans sem kennara. Samfélagið, foreldrar og skóli verði að geta treyst því að kennari, í sínu uppeldishlutverki, hafi slík viðhorf að tjáning þeirr valdi ekki skaða eða stríði gegn mannréttindum. 

Og Sigurður segist telja að Snorri sé kominn út fyrir þessi mörk og hafi brotið gegn siðareglum stéttar sinnar. Í skráðum siðareglum kennara sé kveðið á um virðingu og fordómaleysi, kennarar skuli forðast mismunun og eigi að hafa hag allra nemenda að leiðarljósi og bera virðingu fyrir hverjum einstaklingi eins og hann er.     

„ Og mér sýnist það, ef við getum gefið okkur að það sé ákveðið hlutfall af nemendum í grunnskóla, sem séu samkynhneigðir, þá geta menn vitað það að með því að tjá það að þetta sé synd og laun syndarinnar séu dauði, að þá ertu ekki að bera jafna virðingu fyrir öllum þínum nemendum sem einstaklingum.“