Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Brýnna að bæta líknarmeðferð

20.05.2014 - 19:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Sjúklingar gera sér oft ekki grein fyrir því að þeir hafa ótakmarkaðan rétt á því að hafna læknismeðferð. Sérfræðingur í líknarmeðferð segir mikilvægara að sjúklingar átti sig á réttindum sínum áður en rætt sé um að lögleiða líknardráp hér á landi.

Sylviane Pétursson sagði frá því í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi að eiginmaður sinn hefði tekið þann kost að fara til Sviss til að deyja líknardauða. Hér á landi er líknardauði ekki löglegur en ætti hann að vera það?

Elfa Þöll Grétarsdóttir, líknar- og öldrunarhjúkrunarfræðingur er ekki á þeirri skoðun: „Nei ég get ekki sagt með sannfæringu að ég sé fylgjandi því innleiða líknardráp. Mér finnst við bara ekki komin á þann stað. Við höfum ýmis sóknarfæri, innan ramma núverandi löggjafar, að því að bæta lífslokameðferð,“ segir Elfa Þöll. Skýrt sé í lögum um réttindi sjúklinga að sjúklingar hafi rétt á að hafna meðferð. „En ég held að oft geri sjúklingar sér ekki grein fyrir því að þeir hafi þennan rétt takmarkalaust. Þeir geta óskað eftir því að verða ekki endurlífgaðir ef þeir deyja náttúrulegum dauðdaga og geta óskað eftir því að fá ekki næringu,“ útskýrir hún.

Þá segir Elfa Þöll að bæta þurfi líknarmeðferð á hjúkrunarheimilum en með henni eru þjáningar sjúklinga linaðar, oft með lyfjum, en líf þeirra hvorki lengt né stytt.
„Í dag eru einstaklingar mjög veikir þegar þeir komast á hjúkrunarheimili og eiga skammt eftir ólifað. Á líknardeild Landspítalans sinnir einn hjúkrunarfræðingur fjórum sjúklingum.“ Á hinn bóginn séu hjúkrunarfræðingar á hjúkrunarheimilum með allt frá tíu til þrjátíu eða fleiri sjúklinga á sinni könnu. „Enda hafa rannsóknir sýnt að dauðvona sjúklingar á hjúkrunarheimilum þjást. Fólk er með mikla verki og önnur einkenni sem þarf að meðhöndla betur.“