Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Brýnast að aðskilja akreinar á 6 km kafla

23.12.2017 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Bæjaryfirvöld í Grindavík fagna þeirri tillögu fjárlaganefndar Alþingis um að 200 milljónum króna verði varið til lagfæringa á Grindavíkurvegi á næsta ári. Tvö banaslys hafa orðið á veginum á þessu ári. Forseti bæjarstjórnar í Grindavík segir að brýnast sé að aðskilja akstursstefnu á vegarkaflanum frá Seltjörn að Bláa lóninu.

Undanfarin misseri hafa bæjaryfirvöld í Grindavík þrýst á um að vegurinn verði lagfærður, til að auka öryggi vegfarenda. Fjárlaganefnd Alþingis lagði fram þá breytingatillögu á fjárlagafrumvarpi næsta árs að 200 milljónum verði varið til lagfæringa á veginum. Það var samþykkt við aðra umræðu fjárlaga á Alþingi í gærkvöld. Þriðja og síðasta umræðan verður á milli jóla og nýárs. „Við erum mjög glöð með þessar fréttir og vonumst til þess að þetta verði endanlega samþykkt. Þetta dugar ekki fyrir allri framkvæmdinni en kemur okkur sannarlega af stað að byrja undirbúning og hönnun á þessum hættulegustu köflum fyrst,“ segir Kristín María Birgisdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grindavík. 

Nú í haust hefur samráðshópur um Grindavíkurveg fundað með fulltrúum Vegagerðarinnar, þingmönnum í Suðurkjördæmi, og nú síðast í vikunni með Sigurði Inga Jóhannssyni, samgönguráðherra. Samráðshópinn skipa bæjarfulltrúar Grindavíkur, bæjarstjóri, fulltrúar stærstu fyrirtækjanna í bæjarfélaginu og Vilhjálmur Árnason, alþingismaður sem búsettur er í Grindavík. Kristín segir ánægjulegt að vinna samráðshópsins sé nú að skila sér. Tillaga fjárlaganefndar sé til marks um að búið sé að viðurkenna hve brýnt það er að lagfæra veginn.

Mynd með færslu
Kristín María Birgisdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grindavík. Mynd: Aðsend mynd

Bæjaryfirvöld í Grindavík vilja meðal annars að vegurinn verði breikkaður, akstursstefna aðskild og að akreinar verði tvöfaldar á hluta vegarins. Brýnast er að aðskilja akstursstefnu frá Seltjörn að Bláa lóninu. „Við töluðum fyrir því að aðskilja akstursstefnu á fundi okkar með Vegagerðinni í desember. Núna síðasta miðvikudag á fundi með samgönguráðherra þá töluðum við um að reyna að hefja framkvæmdir á kaflanum á Seltjörn að Bláa lóninu, að aðskilja þann kafla sem er um 6 kílómetrar. Það þarf að láta kné fylgja kviði og við þurfum sannarlega viðbót við þetta. Þetta er þó eitthvað til að byrja með,“ segir Kristín.