Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Brutu Íslendingar gegn EES?

14.12.2011 - 11:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Icesavemálinu verður vísað til EFTA dómstólsins. Jóhannes Karl Sveinsson, sem sat í síðustu samninganefnd Íslands vegna Icesave-samninganna,segir að nú verði skorið úr um það hvort ákvörðun íslenskra um Icesave-reikningana í Hollandi og Bretlandi hafi brotið gegn EES-samningnum.

Jóhannes Karl segir að falli dómurinn Íslandi í óhag geti hollensk og bresk stjórnvöld notað hann til að rökstyðja skaðabótakröfur fyrir dómstólum. 

„Falli dómur þannig að Ísland hafi brotið gegn EES-samningnum mun Eftirlitsstofnunin spyrja Ísland, hvað ætlið þið að gera til að bæta fyrir þetta brot. Þá munu stjórnvöld á þeim tíma svara því hvaða ráð þau telja sig hafa til að bæta fyrir brotið, og maður auðvitað gerir ráð fyrir því að það verði reynt að gera eitthvað, ábyrg stjórnvöld geta ekki staðið uppi með dóma og kært sig kollótt um það. Það gerir enginn“ segir Jóhannes Karl.

Málaferlin gætu tekið allt ár, segir Jóhannes Karl. Niðurstaða mun því ekki liggja fyrir fyrr en á næsta ári. Hann er ekki tilbúinn til að leggja mat á það hver niðurstaða dómstólsins verður. Taka verði málið alvarlega, vona það besta en búa sig undir það versta.

Þingfundi var frestað vegna málsins á Alþingi í morgun. Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, situr nú á fundi utanríkismálanefndar til að ræða málið.

Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Jóhannes Karl hér á ruv.is. Það var Sigríður Hagalín Björnsdóttir sem talaði við hann.