Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Brugg aukist til muna

02.12.2010 - 09:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Brugg á landa og gambra hefur aukist til muna á síðustu misserum segir Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Lögregla stöðvaði framleiðslu í tveimur stórum bruggverksmiðjum fyrir skömmu.

Stefán var gestur í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Þar sagði hann að gögn lögreglunnar sýndu að töluverð aukning hefði orðið í bruggun á landa og gambra á þessu ári. Tilvikin væru líklegast helmingi fleiri og þá væri horft til landsins alls því þetta væri ekki bundið við höfuðborgarsvæðið.


Stefán segir að á stuttum tíma sé búið að stöðva framleiðslu í tveimur stórum verksmiðjum, síðast í Kópavogi, og eitthvað virðist vera að gerast í samfélaginu til að valda þessu.


Stefán segir að auðvitað beri mikið á að viðskiptavinir séu unglingar en þó séu þeir nú á öllum aldri. Þá virðist útigangsmenn hafa greiðari aðgang að landa en áður hafi verið.


Stefán segir verksmiðjur sem hafi verið lokað hafa verið nokkuð umfangsmiklar og að hald hafi verið lagt á mikið af gambra og landa. Hann segir þó að ekki þurfi mjög stórt svæði fyrir brugg. Algengt sé að það sé stundað í bílskúrum, útihúsum eða á einhverjum slíkum stað. Að sögn þeirra sem fóru á vettvang í Kópavogi hafi verksmiðjan þar verið stór og vel útbúin.