Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Brugðust við yfirvofandi vatnsskorti í Flatey

07.01.2018 - 12:24
Mynd: Landhelgisgæslan / Landhelgisgæslan
Vatnsskortur var yfirvofandi í Flatey fyrir helgi því ekkert vatn hafði verið flutt í eyjuna síðan áður en Breiðafjarðarferjan Baldur bilaði. Heimafólk í Flatey hefur undanfarnar vikur horft upp á vatnsyfirborðið í geymum sínum lækka jafnt og þétt. Vatn er alla jafna flutt í eyjuna þegar Breiðafjarðaferjan Baldur siglir en hún hefur verið frá vegna bilunar síðan í nóvember í fyrra.

Magnús Arnar Jónsson, bóndi í Flatey, segir að fólk hafi verið orðið meðvitað um þetta. „Staðan hefur svo sem ekki verið slæm. Við náðum að safna svolitlu vatni áður en Baldur bilaði. Svo þegar er svolítið mikið af fólki hérna í eynni þá auðvitað hverfa vatnsbirgðirnar hægt og rólega.“

Heimafólk vildi þó hafa vaðið fyrir neðan sig og óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar. Hún barst í gær í formi varðskipsins Þórs. „Það kom í gærmorgun til okkar og var hérna í fimm, sex tíma að fylla fyrir okkur tankana,“ segir Magnús Arnar. Nú eru þrjátíu tonn komin á vatnsgeyma heimamanna. „Í sjálfu sér hefðum við svo sem haft vatn. En það eru brunnar hérna sem eru ekki sérstaklega góðir. Við vildum hafa þetta vatn og það var til þess að þurfa ekki að taka allar leiðslur á hverju einasta vori og klóra þær.“

Vatnsbirgðirnar eru þó ekki aðeins nauðsynlegar til heimila og hefðbundins rekstrar. Þær eru líka öryggisatriði, segir Magnús. „Það er ef það kæmi til eldsvoða eða einhvers svoleiðis. Þá höfum við svo litlar birgðir af vatni í eynni til þess að bjarga okkur.“

Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan