Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brottkast í Kleifabergi enn til skoðunar

05.03.2020 - 15:21
Skjáskot/stillur úr umfjöllun Kveiks um brottkast og Fiskistofu
 Mynd: RÚV
Rannsókn á brottkasti um borð í Kleifabergi er enn til meðferðar hjá Fiskistofu. Málið hefur reglulega verið kært til lögreglu sem í öll skiptin hefur tekið ákvörðun um að fella málið niður. Meðal annars hefur útgerðin sjálf kært meint eignaspjöll til lögreglu.

Fréttaskýringaþátturinn Kveikur fjallaði ítarlega um brottkastið í þætti sem var sýndur í nóvember 2017 og voru meðal annars sýndar upptökur sem sýndu umfangsmikið brottkast um borð í skipinu.

Fjögur myndskeiðanna voru frá tímabilinu 2008 til 2010 en eitt frá árinu 2016.

Ráðuneytið gerði Fiskistofu afturreka

Síðan þá hefur málið farið fram og tilbaka í stjórnkerfinu. Fiskistofa ákvað í ársbyrjun 2019 að svipta Kleifarberg veiðileyfi í 12 vikur vegna brottkastsins en atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ákvað fyrst að fresta réttaráhrifum ákvörðunar Fiskistofu áður en það felldi hana endanlega úr gildi.

Meðal annars taldi ráðuneytið að of langt væri um liðið frá því brotin voru framin, það er brottkastið sem tekið var upp á árunum 2008 til 2010.

Hins vegar gerði ráðuneytið Fiskistofu að rannsaka upptökuna frá árinu 2016, þá ekki með tilliti til þess hvort um brottkast væri að ræða eins og Fiskistofa hafði áður komist að heldur hvort um hafi verið að ræða eignarspjöll af hálfu skipverja.

Fiskistofa hefur hins vegar ekki heimildir til að rannsaka upp á eigin spýtur hvort eignaspjöll hafi átt sér stað heldur er það lögreglu að skera úr um það. Fiskistofa er þess vegna háð niðurstöðu lögreglunnar um það atriði.

Lögregla fellir málið ítrekað niður

Málið hefur raunar nokkrum sinnum komið til kasta lögreglu. Skömmu eftir að hafa svipt Kleifaberg veiðileyfi vegna ólöglegs brottkasts sendi Fiskistofa beiðni um rannsókn til héraðssaksóknara. Þann 16. júlí í fyrra fengust þau svör frá héraðssaksóknara að ekki þætti grundvöllur til að halda rannsókninni áfram.

Sjálf hafði útgerð skipsins, Útgerðarfélag Reykjavíkur, sent beiðni um rannsókn til embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í nóvember 2017, það er viku eftir að Kveikur greindi fyrst frá málinu. Vildi útgerðin meina að myndskeiðin hefðu sýnt spjöll á eignum útgerðarinnar.

Þeirri kæru var vísað frá þann 19. janúar í fyrra en útgerðin kærði þá niðustöðu til ríkissaksóknara sem í maí komst að sömu niðurstöðu og lögreglan, það er að gögnin gæfu ekki tilefni til lögreglurannsóknar.

Útgerðin lagði raunar aftur fram kærubeiðni um rannsókn hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í júlí og var því aftur vísað frá með bréfi þann 7. ágúst.

Aftur á borð Fiskistofu

En málinu er þó ekki lokið því í október sendi Fiskistofa útgerðinni bréf þar sem tilkynnt var um að málið yrði tekið upp að nýju og var henni gefinn frestur til að skila inn athugsemdum. Útgerðin skilaði andmælum í febrúar er niðurstaða að vænta innan tíðar.