Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Brotist inn í búningsklefa Stjörnunnar í gær

Mynd með færslu
Hlynur Bæringsson átti stórleik í liði Stjörnunnar í gær en ætla má að þeir mæti vel gíraðir í næsta leik eftir atvik gærdagsins Mynd: Tomasz Marian Kolodziejski

Brotist inn í búningsklefa Stjörnunnar í gær

16.03.2018 - 17:10
Ekki nóg með það að Stjarnan hafi tapað fyrsta leik úrslitakeppninnar í Dominos-deild karla í gær þá var einnig brotist inn í búningsklefa félagsins á meðan leik stóð og hann lagður í rúst.

Stjarnan tapaði fyrir ÍR í gærkvöld en fór leikurinn fram á heimavelli ÍR-inga í Hertz-hellinum. Þegar leikmenn Stjörnunnar komu inn í búningsklefa að leik loknum blasti við þeim ófögur sjón. Föt leikmanna lágu á víð og dreif um klefann og ávaxtabökkunum sem bíða leikmanna venjulega eftir leik hafði verið hent í vegginn. Þá var armband í eigu leikmanns Stjörnunnar ásamt Jordan-skóm troðið ofan í klósettið en engu var hins vegar stolið. 

Samkvæmt heimildum RÚV þá var leikmönnum svo brugðið að þeirra fyrstu viðbrögð voru að taka til í klefanum frekar en að láta KKÍ vita og taka myndir af klefanum. Stjórnarmenn liðanna munu hins vegar hafa rætt málin að leik loknum og ætlar ÍR að bæta öryggisgæslu á heimaleikjum sínum sem og að bæta leikmanni Stjörnunnar tjónið sem hann varð fyrir en Jordan-skórnir voru ónýtir.

KKÍ mun því ekki aðhafast neitt þar sem sátt hefur náðst milli félaganna en sambandið gerir eflaust þá kröfu að ÍR-ingar lagfæri öryggismál sín fyrir komandi leiki.

Vísir greindi fyrst frá.

Tengdar fréttir

Körfubolti

KR og ÍR byrja úrslitakeppnina á sigri