Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Brothættar byggðir: Hríseyingar ekki sáttir

19.06.2017 - 14:06
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Hríseyingar gagnrýna hvernig staðið hefur verið að byggðaþróunarverkefni í eyjunni og finnst það hafa skilað litlu. Það sé seinvirkt og allt of litlir fjármunir séu settir í verkefnið.

Hrísey er eitt af sjö byggðarlögum þar sem verkefnið Brothættar byggðir var sett af stað í því skyni að bregðast við bráðum byggðavanda. Verkefnið í Hrísey hófst 2015.

Segir vanta allan slagkraft í verkefnið

Töluverð umræða var um verkefnið á aðalfundi hverfisráðs Hríseyjar á dögunum og þar kom fram að íbúar telja verkefnið ekki skila miklu. „Það helsta sem kannski er að þessu verkefni er að það vantar slagkraftinn í það,“ segir Linda María Ásgeirsdóttir íbúi í Hrísey og í verkefnisstjórn Brotthættra byggða þar. „Það eru settar í þetta fimm milljónir á ári í styrkfé. Það gerir ekkert stóra hluti, fimm milljónir." Linda segir samt nokkur verkefni hafa orðið til vegna þessa stuðnings. Samt vanti mikið upp á slagkrafrinn, eftirfylgni og stemmninguna í kringum allt starfið. „Og líka, hver ætlar að gera hvað?"

Það þurfi róttækar aðgerðir til að halda fólkinu

Akureyrarbær greiðir laun verkefnastjóra sem stýrir Brothættum byggðum í Hrísey og Grímsey. Og Lindu finnst skorta upplýsingar frá sveitarfélaginu og hverju menn vilji raunverulega ná fram. Svo virðist sem ekki sé verið að vinna að þessu af fullri alvöru. „Á bara að fara að hreinsa upp einhverja gamla hluti, eða á að fara að gera eitthvað róttækt? Það þarf bara sértækar aðgerðir ef á að halda fólki í eyjunum báðum. Og það þarf bara að vekja athygli á þessu verkefni, það þarf að vekja athygli á þessum eyjum. Það er ekkert nóg að vera bara með þær á tyllidögum, perlurnar í Eyjafirði," segir hún.