Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Brot úr Berlínarmúr sett upp við Höfða

10.09.2015 - 16:18
epa01901344 Eight original sections of the Berlin Wall are displayed along Wilshire Boulevard in Los Angeles, California, USA 17 October 2009. The 'Wall Along Wilshire' installation is part of the Wende Museum's 'The Wall Project'
 Mynd: EPA
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að taka við boði frá þýsku listamiðstöðinni Neu West Berlin í Berlín um að taka við hluta úr Berlínarmúrnum til eignar og varanlegrar uppsetningar. Brotið er engin smásmíði - er 4 tonn og verður að öllum líkindum komið fyrir við Höfða.

Í greinargerð sem lögð var fyrir borgarráð í morgun kemur fram að hluturinn sé 370x115x150 að stærð.

Hugur listamiðstöðvarinnar stendur til að verkið verði afhjúpað við formlega athöfn í tengslum við hátíðarhöld á þjóðhátíðardegi Þýskalands þann 3. október. Þá verður jafnframt haldið upp á 25 ára afmæli endursameiningar Þýskalands.

Í greinargerðinni er þess getið að nokkur kostnaður hljótist af þessu verkefni - hann er áætlaður um 1,5 milljónir. Samskip hefur lýst yfir áhuga sínum að koma að verkinu og sjá um flutnings þess frá Berlín til Reykjavíkur, borginni að kostnaðarlausu.

Brot úr Berlínarmúrnum hafa verið gefin víða um heim - meðal annars er eitt slíkt í Kingston á Jamaíka. Spretthlauparinn Usain Bolt fékk það að gjöf eftir að hafa sett heimsmet í 100 metra hlaupi í þýsku höfuðborginni. Þá stendur einn hlutur við Ronald Reagan-bókasafnið í Simi Valley í Kaliforníu.  

Í greinargerðinni kemur fram að þetta sé vegleg gjöf sem sé hluti heimssögulegra viðburða og hlaðin merkingu. „Ef af verður, liggur af sögulegum ástæðum, beinast við að staðsetja verkið í námunda við Höfða,“ segir í greinargerðinni - verkið hafi aðdráttarafl í sjálfu sér og hægt verði að tengja það við leiðtogafundinn 1986. „Þá mætti nýta tækifærið sem í gjöfinni felst til að styrkja tengsl Reykjavíkur og Berlínar til frambúðar.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV