Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Brjósttittlingur í fyrsta skipti á Íslandi

09.12.2013 - 00:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Sjaldgæfur fugl sást í Höfðaskógi við Hvaleyrarvatn í gær, en fuglinn, sem ber hið óvenjulega nafn brjósttittlingur, er amerískur og hefur aldrei sést fyrr hér á landi.

Brjósttittlingsins varð vart við gróðrastöðina Þöll við Höfðaskóg í Hafnarfirði í gær, en þangað sækja fuglar fæði á fóðurborð yfir vetrartímann. Steinar Björgvinsson, starfsmaður gróðrastöðvarinnar, segir brjósttittlinginn strax hafa vakið athygli. „Það kom þarna fugl sem við ekki þekktum. Svo komu fleiri og það var farið að ljósmynda, og svo varð niðurstaðan að þetta væri þessi svokallaði brjósttittlingur.“

Mynd: Björgvin Sigurbergsson // http://www.flickr.com/photos/bjorgvinsig/

Á ensku nefnist fuglinn Lincoln sparrow, en hann er amerískur spörfugl og verpir við strandir Norður ameríku, Kanada og Alaska. Hann hefur aldrei sést áður hér á landi og aðeins einu sinni í Evrópu svo vitað sé, á Azor eyjum. Ekki er vitaf af hvaða orsökum hann villtist hingað til lands.
Að sögn Steinars var brjósttittlingurinn einn á ferð. „Þetta er bara einn fugl, einn stakur fugl og hann var aðallega einn eða í selskap með snjótittlingum en talsvert minni en snjótittlingur, og nokkuð gæfur.“ Að sögn Steinars vakti hann mikla athygli. „Það eru tugir fuglaskoðara og ljósmyndara búnir að koma uppeftir til okkar í gær og dag,“ segir hann.