Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brjóstmynd konungs seld í óþökk Egypta

05.07.2019 - 04:46
Mynd með færslu
 Mynd: Christie's - Christie's uppboðshúsið
Þrátt fyrir ósk Egypta um að fornleifum þaðan sé skilað frá Bretlandi, var brjóstmynd af forn-egypska konungnum Tutankhamun seld á uppboði í Lundúnum í gær. Ónefndur kaupandi reiddi fram jafnvirði nærri 750 milljóna króna fyrir 3.000 ára gamla styttuna.

Um 20 mótmælendur komu saman fyrir utan uppboðshús Christies í Lundúnum og héldu á spjöldum þar sem sagði að saga Egypta væri ekki til sölu. Egyptar hafa lengi krafist þess að fornmunir sem eru í fórum annarra ríkja verði skilað aftur til landsins. Meðal þess sem finna má í breska þjóðminjasafninu í Lundúnum er Rósettusteinninn frá Egyptalandi. Fleiri ríki hafa krafið Breta um að skila fornleifum, til að mynda Grikkland, Nígería og Eþíópía. 

Styttan af Tutankhamun hefur gengið kaupum og sölum áratugum saman. Christies sendi frá sér yfirlýsingu eftir uppboðið þar sme segir að þar á bæ hafi menn fullan skilning á að sala sögulegra muna geti leitt til umræðu um sögu hlutanna. Hlutverk uppboðshússins sé að reyna að halda áfram að veita gegnsæa og löglega þjónustu þar sem ströngustu skilyrði séu uppfyllt, hefur Guardian eftir yfirlýsingunni.

Áður en uppboðið hófst lýsti Mostafa Waziri, yfirmaður fornleifanefndar egypskra stjórnvalda, vonbrigðum sínum með að brjóstmyndin yrði boðin upp þrátt fyrir ítrekuð mótmæli Egypta. Hann segir Egypta telja að styttan hafi veirð tekin ófrjálsri hendi frá Egyptalandi, og engin skjöl hafi verið lögð fram sem sýni hið gagnstæða.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV