Brjóst og byltingar

Mynd: Eugène Delacroix / La Liberté guidant le peuple

Brjóst og byltingar

09.06.2015 - 14:48

Höfundar

Undanfarna mánuði hafa feminískar netbyltingar verið áberandi í deiglunni. Þar má helst nefna íslensku brjóstabyltinguna #freethenipple sem fór fram á samskiptavefnum Twitter. Njörður Sigurjónsson, dósent við Háskólann á Bifröst, hefur kannað brjóstabyltinguna út frá byltingarfræðum.

Hlutverk einstaklinga í samfélagsbreytingum

Njörður hefur tekið fyrir byltingar út frá ólíkum fræðilegum sjónarhornum í tengslum við byltingarfræði í Háskólanum á Bifröst. Stjórnmálafræðilegar og sagnfræðilegar nálganir liggja beint við en Njörður leggur einnig áherslu á hvernig líta má á byltingar út frá óhefðbundnum sjónarhornum: t.a.m. út frá skapandi notkun fjölmiðla.

Með því er hægt að draga fram áhrif einstaklinga í samfélagsbreytingum en áhugavert er að kanna með hvaða hætti fólki getur haft jákvæð áhrif á samfélagið. Sem dæmi um slíkar áherslur segir Njörður: „Við viljum kanna hvernig við getum orkestrarað byltingu þannig að við raunverulega gerum eitthvað. Ekki bara í huganum.“

Latína og brjóstabyltingin

Skiptar skoðanir geta verið á því hvaða atburðir eigi að flokkast undir byltingar. Njörður kýs að fara í latneska grunn orðsins sem upphaflega vísaði til umsnúnings, þá sérstaklega um gang pláneta og himinhvolfanna. „Þegar þessi snúningur fer af stað þá er ekkert sem stoppar hann. Hann er óháður mannlegum kröftum“ segir Njörður. Bylting er því ekki það sama og breyting eða uppreisn. Ekki er hægt að stýra byltingum og óvíst er hver niðurstaða þeirra verður.

Íslenska brjóstabyltingin #freethenipple er áhugaverð í þessu ljósi þar sem aðeins eru um tveir mánuðir síðan að hún átti sér stað. Endanleg áhrif eru óljós en sjá má ákveðin tengsl við nýja feminíska nethreyfingu sem tengd er við facebook-hópinn „Beauty Tips“. Á síðu hópsins hefur mikill fjöldi kvenna deilt reynslusögum sínum af kynferðisofbeldi og fullyrða má að ákveðin vitundarvakning hafi átt sér stað.

Einangruð bylting?

Fyrir flestum eru byltingar oft og tíðum nátengdar stjórnarfarsbreytingum. Slíkar byltingar hafa þar með skýr landlæg áhrif þar sem stjórnarfarsbreytingar snerta líf allra landsmanna. Brjóstabyltingin hefur hins vegar verið bundin ákveðin samfélagsmiðil sem rýrir mögulega áhrif byltingarinnar á samfélagið.

Njörður segir ´68-byltinguna vera dæmi um byltingu sem breytti ekki stjórnarfari en hafði þó víðtæk áhrif á samfélagið í heild sinni. Það sem er athyglisvert við brjóstabyltinguna er að hún fer ekki aðeins fram á samfélagsmiðlum, sem eru að verða sífellt miðlægari í lífi fólks, heldur eru samfélagsmiðlar einnig viðfang hennar. Brjóstabyltingin er þar af leiðandi sjálfsvísandi þar sem hún berst gegn ritskoðun sem grundvallast á því að brjóst séu kynfæri.

Miðlar og táknheimar

Ekki er víst að brjóstabyltingin #freethenipple hafi náð til allra Íslendinga en með nýjum miðlum koma nýjar leiðir byltinga. Brjóstabylting íslenskra kvenna hlaut mikla athygli í erlendum fjölmiðlum enda fóru allar mótmælaaðgerðirnar fram á samfélagsmiðlinum Twitter. Þannig varð útbreiðsla byltingarinnar ekki bundin við Ísland eins og líklegt væri ef um hefðbundnar mótmælaaðgerðir væri að ræða.

Njörður segir þar með nýjan tón sleginn í brjóstabyltingunni þar sem allar aðgerðir, bæði á netinu og á götum úti, eru hugsaðar út frá myndbirtingu. Um aðgerðir á borð við það að labba berbrjósta að Alþingishúsinu eða fara berbrjósta í sund segir Njörður: „Aðgerðirnar gengu út á að birta myndir af sér en ekki endilega að fara út og gera svæðið að sínu. Eins og er í þessum klassísku mótmælaaðgerðum.“

Brjóstabyltingin er því afar myndræn og vísar einnig í listasöguna. „Hún vísar í myndir af konum sem eru oftar en ekki naktar. Þær hafa verið viðfang karlkyns málara og þeir hafa gert úr þeim hluti“ segir Njörður. Eitt af viðfangsefnum byltingarinnar er t.d. að berjast gegn hefndarklámi og færa skömmina á gerandann fremur en fórnarlambið. Brjóstabyltingin mótmælir einnig stöðu kvenna sem viðfang karla.

Rætt var við Njörð Sigurjónsson í Víðsjá 8. júní.