Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Breytum ekki konum, breytum samfélaginu

21.10.2018 - 18:27
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Breytum ekki konum, breytum samfélaginu eru kjörorð kvennafrísins sem fer fram í sjötta sinn í ár. Kvennafrí er haldið undir formerkjum #metoo til að styðja við þær konur sem hafa opnað sig um kynferðisofbeldi og áreitni af ýmsu tagi.

Konur eru hvattar til þess að leggja niður störf klukkan 14:55 á miðvikudaginn og sýna þannig samstöðu í baráttunni fyrir jöfnum launum kynjanna en samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands eru konur með að meðaltali 26% lægri atvinnutekjur en karlar. Konur hafa því unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17.  

Vilja ná til allra kvenna í samfélaginu

Fjöldi kvenna kom saman í húsnæði Eflingar í dag og undirbjó skilti fyrir samstöðufund sem verður haldinn á Arnarhóli. Í ár var ákveðið skipuleggja kvennafrí eftir að fjöldi kvenna steig fram og sagði frá áreitni, ofbeldi og misrétti á vinnustöðum og sérstök áhersla er lögð á að ná til allra kvenna í samfélaginu.

Tatjana Latinovic, formaður innflytjendaráðs, hefur tekið þátt í skipulagningu kvennafrís áður og hún segir gott samstarf við Samtök kvenna af erlendum uppruna. „Það er ennþá mjög virkur #metoo-hópur á Facebook, lokaður hópur kvenna af erlendum uppruna og þar höfum við verið að setja upplýsingar. Og þar hafa konur tekið sig til og þýtt til dæmis auglýsingu á fjórtán tungumál sem hefur núna borist víða, út fyrir landsteinana, sem er mjög skemmtilegt,“ segir hún. Kvennréttindasamtök í ýmsum löndum hafi haft samband og mikið sé horft til kvennafrís á Íslandi sem fyrirmynd. „Þá er fólk sem þekkir erlendar konur líka að láta vita af þessu og það er þessi samtakamáttur sem er svo mikilvægur. Ég hvet fólk sem skilur íslensku til þess að láta þær konur sem kannski skilja ekki íslensku og vita ekki af þessu að láta þær vita,“ segir Tatjana.

Mikilvægt að hafa hátt

Maríanna Traustadóttir, sérfræðingur í jafnréttismálum hjá ASÍ, segir samstarf verkalýðshreyfingarinnar og samtaka kvenna hafa verið mikið og þétt undanfarin ár. „Í þessum málaflokki, það er að segja áreitni á vinnustað, þar höfum við tekið saman höndum og ákveðið að vinna saman að því að bæta samfélagið þannig að konur séu ekki bara öruggar heima hjá sér heldur öruggar í vinnunni og í samfélaginu öllu,“ segir Maríanna. 

Þetta er í fjórða skipti sem Maríanna tekur virkan þátt í undirbúningi kvennfrís. Hún segist taka eftir breytingum, en skrefin séu smá og gætu verið stærri. „Það er mjög mikilvægt að konur láti í sér heyra, að við höfum hátt, af því að annars væru ekki neinar breytingar.“

Maríanna segir samstöðu sterkasta vopnið. „Í ár er mikilvægt að við göngum út og sýnum samstöðu. Sýnum samstöðu við þær þúsundir kvenna sem hafa stigið fram og sagt frá kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir, og við viljum sýna að með samstöðu kvenna þá getum við breytt samfélaginu.“