Breyttist eitthvað eftir slysið í Dakka?

Mynd með færslu
 Mynd:

Breyttist eitthvað eftir slysið í Dakka?

22.04.2014 - 16:28
Nú er ár liðið frá slysinu í Dakka þegar fataverksmiðja hrundi með hörmulegum afleiðingum. En breytti slysið einhverju í aðbúnaði verkafólks? Hvað með bætur til eftirlifandi ættingja? Stefán Gíslason fer yfir þessi mál í pistli sínum sem líka má lesa hér að neðan.


Á fimmtudag verður liðið eitt ár frá Rana Plaza slysinu í Dakka í Bangladesh, en þar hrundi fataverksmiðja síðasta vetrardag í fyrra með þeim afleiðingum að hátt í 1.200 manns týndu lífi. Þetta slys var það stærsta í sögu fataframleiðslu í heiminum, og er þar þó af nógu að taka, því að í þróunarlöndunum vinnur fjöldi verkafólks við skelfilegar aðstæður við framleiðslu á fötum fyrir Vesturlandabúa sem hugsa meira um að dótið sem þeir kaupa sé ódýrt en að það sé framleitt við mannsæmandi aðstæður.

 

Í framhaldi af slysinu í Dakka fór af stað mikil umræða um brýna nauðsyn þess að bæta aðbúnað verkafólks í fataframleiðslu. Stórslys í iðnaði hafa jú stundum áður verið sá hvati sem þurfti til að stuðla að breytingum, svo skelfilega sem það kann að hljóma. Nú þegar heilt ár er liðið frá hörmungunum í Dakka er því tímabært að líta um öxl og velta því fyrir sér hverju þetta hafi breytt, þ.e.a.s. hvort greina megi einhverjar varanlegar breytingar til hins betra, eða hvort almennt sinnuleysi hafi kannski búið um sig á nýjan leik í hugum þeirra sem hafa vald til þess að breyta. Nokkrir erlendir fréttamiðlar hafa einmitt farið í dálitla greiningu á þessu síðustu daga og vikur.

 

Í umfjöllun The Guardian fyrr í þessum mánuði er því haldið fram að ýmislegt hafi breyst til batnaðar á því ári sem liðið er frá Rana Plaza slysinu. Þannig séu neytendur nú almennt mun meðvitaðri en áður um tilurð vörunnar sem þeir kaupa, meðal annars fyrir atbeina ýmissa samtaka sem hafa lagt sig fram um að upplýsa fólk um samhengi hlutanna. Þarna hafi umræða á samfélagsmiðlum einnig haft mikil áhrif til hins betra. Á það er einnig bent í umfjöllun The Guardian að nú hafi meira en 150 fyrirtæki undirritað bindandi samkomulag um bruna- og öryggismál í fataverksmiðjum í Bangladesh og að í framhaldi af því hafi verið gerð sérstök úttekt á 675 slíkum verksmiðjum.

 

Auk þess sem hér hefur verið nefnt hafa ýmsar framfarir orðið á heimavelli í Bangladesh. Þannig hafa stjórnvöld leyft starfsemi samtaka verkamanna sem áður voru í ónáð, og auk þess hafa lágmarkslaun verið hækkuð um 77% og eru nú 68 dollarar á mánuði, eða sem nemur rúmlega 7.600 íslenskum krónum. Þessar úrbætur stafa þó ekki endilega eingöngu af skilningi stjórnvalda á aðstæðum verkafólks, heldur kann líka að skipta máli í þessu sambandi að eftir slysið ákváðu stjórnvöld í Bandaríkjunum að fresta gildistöku tiltekinna ákvæða sem liðkað hefðu fyrir viðskiptum milli landanna. Auk þess stóðu verksmiðjueigendur í Bangladesh frammi fyrir þeirri ógn að orðin „made in Bangladesh“ gætu hreinlega dregið úr sölu á viðkomandi vöru ef ekki yrði gripið til viðeigandi ráðstafana.

 

Fleira hefur breyst. Þannig hafa fatakeðjur á Vesturlöndum í auknum mæli gert fasta langtímasamninga við framleiðendur í stað þess að láta skammtímasjónarmið ráða ferðinni. Sömuleiðis hafa þær í auknum mæli tekið þátt í endurbótum á verksmiðjunum í því augnamiði að auka framleiðni, draga úr áhættu og innleiða aukna áherslu á siðferðilega þætti í viðskiptum. Enn eiga menn þó langt í land í málum á borð við vinnutíma, óleyfilega útvistun verkefna, misrétti og áreitni sem viðgengst í verksmiðjunum.

 

Pistlahöfundur The Guardian telur ástæðu til bjartsýni þegar á heildina er litið. Boðleiðir séu orðnar mun opnari og greiðari en áður, m.a. vegna þess að milljónir verkamanna eigi nú snjallsíma og geti skrifað og tíst um aðstæður sínar á samfélagsmiðlum á borð við Facebook og Twitter. Sömuleiðis hafi rekjanleikinn aukist, þannig að kaupendur á Vesturlöndum eigi meiri möguleika á því en áður að sjá í hvaða verksmiðjum fötin þeirra hafi verið framleidd. Þess séu jafnvel dæmi að GPS-hnit framleiðslustaðarins séu gefin upp. Innan tíu ára verði staðan orðin þannig að siðlaus fyrirtæki sem meðhöndla starfsfólkið sitt illa eigi sér engan felustað.

 

Í umfjöllun Reuters fyrr í þessum mánuði kemur fram að bætur til ættingja þeirra sem létust í Rana Plaza slysinu séu eitt þeirra fjölmörgu mála sem misvel hafi gengið að afgreiða á því ári sem liðið er. Upphaflega var ætlunin að safna 40 milljónum dollara, eða um fjórum og hálfum milljarði íslenskra króna, í sérstakan sjóð í vörslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) til stuðnings fórnarlömbunum. Enn sem komið er hefur aðeins þriðjungur af þeirri upphæð skilað sér, og aðeins helmingur af þeim 29 fatakeðjum sem voru í viðskiptum við verksmiðjurnar í Rana Plaza húsinu hefur látið eitthvert fé af hendi rakna. Til að bregðast við þessu var sérstöku átaki hleypt af stokkunum fyrr í þessum mánuði til að þrýsta á fatakeðjurnar að leggja fé í sjóðinn. Markmiðið er að innheimta það sem á vantar fyrir ársafmælið á fimmtudag.

 

Menn geta velt fyrir sér ástæðum þess að aðeins helmingur af þeim 29 fatakeðjum sem um ræðir hefur lagt peninga í styrktarsjóðinn. Fjárskortur er þó varla ein af þessum ástæðum ef marka má orð Ineku Zeldenrust hjá samtökunum Clean Clothes Campaign, en að hennar sögn er samanlagður árlegur hagnaður þessara 29 fyrirtækja um 22 milljarðar dollara, þ.e.a.s. 550-sinnum hærri upphæð en sem nemur heildarstærð styrktarsjóðsins. Þarna er með öðrum verið að biðja fyrirtækin um að leggja næstum því 0,2% af hagnaði sínum í sjóð til styrktar fólkinu sem hagnaður fyrirtækjanna byggir á.

 

Fyrr í þessum pistli velti ég upp þeirri spurningu hvort einhverjar varanlegar breytingar hefðu orðið til hins betra eftir slysið í Dakka, eða hvort almennt sinnuleysi hefði kannski búið um sig á nýjan leik í hugum þeirra sem hafa vald til þess að breyta. Næsta spurning er þá auðvitað hverjir hafi þetta vald. Svarið er tiltölulega einfalt. Það eru nefnilega við sjálf sem höfum vald til þess að breyta. Og þegar ég tala um okkur sjálf á ég við neytendur á Vesturlöndum. Við eigum að spyrja spurninga og gera kröfur, minnug þess að fatakeðjurnar geta ekki selt eina einustu flík sem við viljum ekki kaupa! Við eigum ekki að sætta okkur við að velferð okkar sé byggð á eymd annarra. Hver einasta verslunarferð skiptir máli, því að í hvert sinn sem við kaupum föt án þess að hugsa um uppruna þeirra eða framleiðsluaðferðir, erum við að greiða atkvæði með einmitt þessum uppruna eða þessari framleiðsluaðferð. Það er sjálfsagt ágætt hjá mér að hneykslast á þessum 29 stórfyrirtækjum sem tíma ekki að sjá af 0,2% af hagnaði sínum til að styðja við bakið á fórnarlömbum hagnaðarins. En það er samt ég sjálfur sem þarf að vera breytingin.