Breytti Hrunið umhverfisumræðunni ?

Mynd með færslu
 Mynd:

Breytti Hrunið umhverfisumræðunni ?

07.10.2013 - 13:42
Í pistli sínum í dag veltir Stefán Gíslason því fyrir sér hvort hrun og fjármálakreppur heimsins hafi einhver áhrif á umhverfismál og umhverfisumræðu.


Umhverfismál eftir hrun

Á 5 ára afmæli hrunsins er ekki úr vegi að líta um öxl og velta fyrir sér hvaða breytingar hafi orðið í umhverfismálum frá því í október 2008, og hvort þessar breytingar séu á einhvern hátt afleiðingar hrunsins – eða hvort þær hefðu kannski barasta orðið hvort sem var. Við getum reyndar nálgast þessa spurningu úr mismunandi áttum. Við getum til dæmis hvort sem er horft á raunverulegar breytingar í umhverfinu eða á breytingar í stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda. Og sömuleiðis getum við hvort sem er litið á þetta eingöngu í íslensku samhengi eða alþjóðlegu.

 Hrunið haustið 2008 var ekki séríslenskt fyrirbæri, enda er enginn eyland nú til dags, hvorki í umhverfislegu, efnahagslegu né stjórnmálalegu tilliti. Fyrstu vikurnar og mánuðina eftir hrun veltu menn því mikið fyrir sér hvernig umræðan um umhverfismál myndi breytast í kjölfar hrunsins. Sumir óttuðust að umhverfismálin yrðu útundan vegna þess að menn teldu sig ekki hafa efni á að sinna þeim eins og staðan var orðin. Þess vegna myndu til dæmis framlög ríkja til umhverfis- og þróunarmála lækka. Samtímis myndu menn ganga harðar að náttúruauðlindum til að halda uppi þjóðarframleiðslu og hagvexti, til dæmis með því að „höggva alla skógana og selja timbrið, eða með því að sprengja öll kóralrifin með dýnamíti til að ná öllum fiskum sem þar leynast“, eins og Johan Rockström, forstjóri Stockholm Environment Institute, orðaði það haustið 2008. Aðrir voru vongóðir um að menn myndu læra af hruninu, því að hrunið hefði einfaldlega verið gjaldþrot skammtímaviðhorfanna. Menn myndu átta sig á því að skammtímaáherslur dygðu ekki lengur, hvorki á Wall Street né í umhverfismálum. Hrunið fæli í sér tækifæri fyrir mannkynið til að staldra við og hugsa hvernig hægt væri að komast áfallalítið inn í framtíðina. Sú vegferð myndi byggjast á skilningi á samhengi hagfræðinnar og vistfræðinnar. Fjármálastofnanir sem á annað borð myndu lifa af, myndu reyna að draga úr áhættu í ákvörðunum sínum í náinni framtíð og fjárfestar myndu í auknum mæli horfa til fyrirtækja í græna hagkerfinu, t.d. fyrirtækja sem vinna að þróun nýrra orkugjafa, enda væru þau líkleg til að skila betri ávöxtun til lengri tíma litið. Fjárfestar myndu frekar vilja „sitja við borðið en vera á matseðlinum“, eins og einhver orðaði það.

 Það er ekki til neinn einfaldur mælikvarði á það sem hefur gerst í raunveruleikanum frá haustinu 2008. En með því að skoða nokkra tiltæka mælikvarða getur maður fengið einhverja hugmynd um þróun mála. Worldwatch Institute i Bandaríkjunum heldur til að mynda saman margvíslegri tölfræði um stöðu og þróun umhverfismála og gefur út, bæði á netinu og í bókarformi, undir yfirskriftinni Vital Signs. Þegar nýjustu tölurnar þaðan eru skoðaðar virðist flest benda til að hrunið hafi verið eins og „hver önnur bræla“, eins og það var einhvern tímann orðað. Það virðist hafa orðið einhver truflun í línuritunum 2008 eða 2009, rétt eins og þau hefðu verið teiknuð með skjálfhentri hendi, en síðan hefur allt haldið áfram með svipuðum hætti og fyrr.

 Árleg kola- og gasnotkun jarðarbúa er einn þeirra mælikvarða sem gefa vísbendingu um þróun mála eftir hrun. Gasnotkun á heimsvísu hefur aukist jafnt og þétt árum saman um rúm 2% milli ára, og kolanotkunin hefur aukist enn meira upp á síðkastið, eða um 5-6% milli ára. Þarna verður ekki séð að hrunið hafi breytt neinu, að frátöldu svolitlu skarði sem kom í bæði línuritin 2009.

 Þróun í nýtingu sólarorku og vindorku gæti gefið vísbendingu um breyttar áherslur á heimsvísu eftir hrun. Tölur Worldwatch benda þó ekki til að hrunið hafi haft nein afgerandi áhrif í þessu sambandi. Á þessum sviðum er gríðarlegur vöxtur í gangi, hvort sem litið er á fjárfestingar eða samanlagt uppsett afl sólar- og vindorkuvera. Þannig hefur samanlagt afl vindorkuvera yfirleitt aukist um 20-30% á milli ára, og í sólarorkunni hefur aukningin verið enn meiri, eða yfirleitt á bilinu 40-70% á milli ára. Þessi þróun hefur verið nokkuð jöfn síðustu 10 ár og engin leið að sjá að hrunið hafi haft nein marktæk áhrif í því sambandi.

 Ef við lítum okkur nær og skoðum þróun umhverfismála á Íslandi eftir hrun, þá er þar líklega svipaða sögu að segja. Alla vega er erfitt að reiða fram óyggjandi sannanir þess að hrunið hafi haft veruleg áhrif. Þó virðist margt benda til að Íslendingar hugsi meira um það en áður að nýta hlutina vel. Þetta endurspeglast meðal annars í mikilli sölu á notuðum fatnaði, auknum áhuga á ræktun eigin matjurta og fjölgun hjólreiðafólks á götum Reykjavíkur. Þessi þróun getur átt sér ýmsar aðrar ástæður, en það virðist þó liggja beint við að álykta að lærdómur sem fólk hafi dregið af hruninu eigi sinn þátt í þessu, hvort sem fólk hafi tileinkað sér þennan lærdóm af fúsum og frjálsum vilja eða út úr neyð.

 Fljótt á litið virðist hrunið ekki hafa haft afgerandi áhrif á ákvörðunartöku íslenskra stjórnvalda á sviði umhverfismála. Líklega er þó enn of snemmt að fullyrða um þetta. Þannig má telja líklegt að þingsályktunin um eflingu græna hagkerfisins, sem Alþingi náði fáheyrðri samstöðu um í mars 2012, hafi að töluverðu leyti átt upptök sín í breyttum hugsunarhætti ráðamanna í kjölfar hrunsins. Við lauslega skoðun á fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2014 virðist hins vegar fátt benda til að ætlunin sé að fylgja ályktuninni eftir. Þegar línurit yfir áhuga íslenskra stjórnvalda á umhverfismálum verður skoðað að nokkrum árum liðnum, þ.e.a.s. ef á annað borð væri hægt að teikna slíkt línurit, þá gætu menn sem sagt hugsanlega dregið þá ályktun að teiknarinn hafi gerst örlítið skjálfhentur í kjölfar hrunsins, en náð sér fljótlega aftur í hendinni. En þetta á eftir að koma betur í ljós.

 Hvort sem horft er á raunverulegar breytingar í umhverfinu eða á breytingar í stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda á sviði umhverfismála – og hvort sem er litið á þetta eingöngu í íslensku samhengi eða alþjóðlegu, þá virðist meginniðurstaðan, með fáeinum góðum undantekningum, vera þessi: Hrunið var eins og „hver önnur bræla“ og skammtímaviðhorfin komu til þess að gera óskemmd undan skriðunni.