Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Breytti embættinu í langri setu

01.01.2016 - 19:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur Ragnar Grímsson hefur gegnt embætti forseta Íslands lengur en nokkur annar. Hann var fyrstur til að beita málskotsrétti og hefur um margt verið umdeildur.

 

Ólafur Ragnar bauð sig fyrst fram til forseta árið 1996 og var þá einn fjögurra frambjóðenda. Aðrir frambjóðendur voru Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Agnarsdóttir og Ástþór Magnússon. Ólafur fékk liðlega 41,4% atkvæða. Fjórum árum síðar var Ólafur Ragnar sjálfkjörinn.
Árið 2004 fékk Ólafur Ragnar mótframboð að nýju og fékk þá 85,6% atkvæða, en mótframbjóðendur voru Baldur Ágústsson og Ástþór Magnússon. Árið 2008 var Ólafur Ragnar sjálfkörinn í annað sinn. Í nýársávarpi sínu árið 2012 lýsti Ólafur Ragnar því yfir að hann hefði hug á að þjóna þjóðinni án þess að þurfa að sinna skyldum forseta.

„Ákvörðun mín felur því ekki í sér kveðjustund heldur upphaf aðannarri vegferð, nýrri þjónustu við hugsjónir sem hafa löngum verið mérleiðarljós; frjálsari til athafna en áður og ríkari af reynslunni sem forsetaembættið færir hverjum þeim sem þjóðin kýs“ sagði Ólafur Ragnar á nýársdag 2012.. 

Efnt var til undirskriftasöfnunar þar sem skorað var á Ólaf Ragnar að endurskoða ákvörðun sína og gefa kost á sér að nýju. Liðlega 30 þúsund manna skoruðu á hann í febrúar og 4. mars sendi Ólafur Ragnar frá sér yfirlýsingu þar hann varð við áskoruninni, meðal annars vegna óvissu varðandi stjórnskipan landsins, stöðu forseta í stjórnarskrá og átaka um fullveldi Íslands. Hann sá þó ástæðu til að óska eftir skilningi þjóðarinnar þegar ástandið hefði batnað, að hann hyrfi til annarra verkefna áður en kjörtímabilið væri á enda.

Í kosningunum árið 2012 fékk hann fimm mótframbjóðendur og tæp 53% atkvæða. Mótframbjóðendur voru Þóra Arnórsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Herdís Þorgeirsdóttir, Andrea J. Ólafsdóttir og Hannes Bjarnason. Óhætt er að segja að Ólafur Ragnar hafi verið umdeildur sem stjórnmálamaður og víst má segja að sem forseti hafi hann verið það líka. Hann hafi á margan hátt breytt hlutverki og ásýnd forsetaembættisins. Þó líklega aldrei eins og árið 2004 þegar hann neitaði að staðfesta lög um fjölmiðla.

„Ég hef því ákveðið í samræmi við 26. grein stjórnarskrárinnar að staðfesta ekki lagafrumvarp um breytingu á útvarpslögum ogsamkeppnislögum og vísa því á þann hátt í dóm þjóðarinnar,“ sagði forsetinn meðal annars þegar hann tilkynnti um ákvörðun sína. 

Þar með lék ekki lengur vafi á gildi 26. greinar stjórnarskrárinnar um synjunarvald forseta. Þetta endurtók hann svo í tvígang árin 2010 og 2011 vegna laga um Icesave. Þegar Ólafur Ragnar bauð sig fram árið 1996 var Guðrún Katrín Þorbergsdóttir eiginkona hans honum við hlið. Hún lést tveimur árum eftir að Ólafur Ragnar var kjörinn forseti. Fimm árum síðar kvæntist hann Dorrit Moussaieff. Þau eru í þjóðskrá skráð sem hjón en ekki í samvistum.

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV