Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Breytt kerfi, engar bætur frá Dönum

Mynd: RÚV / RÚV
Þó að EES-samningurinn kveði á um að öryrkjar sem flytja milli landa eigi ekki að tapa áunnum réttindum greiða Danir öryrkjum undir fertugu ekki örorkulífeyri. Sérfræðingur á Tryggingastofnun segir að miklar breytingar hafi orðið á almannatryggingalögum í Evrópu á síðustu árum.

Við höfum síðustu daga fjallað um svokallað skert búsetuhlutfall öryrkja. Það kemur til hjá þeim sem hafa búið í öðru landi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Til að öðlast fullan rétt á bótum frá Tryggingastofnun þarf viðkomandi að fá úrskurð um að minnsta kosti 100% búsetuhlutfall miðað við 40 ára búsetu frá 16 til 67 ára aldurs. Við notuðum dæmi Jóhönnu Þorsteinsdóttur. Í stuttu máli var saga hennar sú að hún bjó í Danmörku í 5 ár frá 16 ára aldri og glímdi við geðræn vandamál. Hún flutti heim og í mjög stuttu máli var búsetuhlutfall hennar metið 21%. Hún fékk því aðeins fjórðung af bótunum hér heima en það sem var verra, var að engar bætur voru í boði frá Danmörku.

„Ég reyndi að sýna Tryggingastofnun þær neitanir en svarið var alltaf eins. Ég ætti samt bara að fá þetta hlutfall,“ sagði Jóhanna í Speglinum í vikunni. Hún hefur reyndar náð bata og er að ljúka námi í rennismíði í Danmörku.

Eiga ekki að missa áunninn rétt

Samkvæmt tölum frá því í fyrra fá um 88% öryrkja með skert búsetuhlutfall engar bætur frá fyrra búsetulandi. En hver er hugsunin á bak við útreikninga Tryggingastofnunar þegar kemur að því að meta búsetuhlutfalla öryrkja? 

Anna Elísabet Sæmundsdóttir hjá Tryggingastofnun segir að málið snúist um að reikna út bætur öryrkja frá fyrsta örorkumati. Hún vísar til EES-samningsins sem Ísland er aðili að. Markmiðið með honum sé meðal annars að tryggja frjálsa för launafólks milli landa. Það nái til öryrkja, að þeir missi ekki áunninn rétt í einu landi þegar þeir flytja til annars lands.

„Síðan þegar komið er að því að sækja um greiðslur þá er réttur í hverju landi skoðaður og greiðslum úthlutað í samræmi við áunninn rétt í hverju landi fyrir sig,“ segir Anna Elísabet.

Tryggingastofnun hefur stuðst við þessa reikniaðferð frá því að EES-samningurinn var samþykktur og gekk í gildi 1994.

„Hvert land borgar í samræmi við þann tíma sem viðkomandi var tryggður í því landi.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Anna Elísabet Sæmundsdóttir.

Engar greiðslur fá Danmörku

Tryggingar stofnunarinnar byrja við 16 ára aldur. Þegar kemur að því að meta búsetuhlutfall öryrkja er litið á tímabil eða búsetu viðkomandi fá 16 ára aldri og fram að fyrsta örorkumati.

„Þannig að ef að þú hefur verið búsettur 40 prósent af því tímabili á Íslandi þá hefur það verið þannig að við borgum 40 prósent af tímabilinu frá örorkumati fram til 67 ára,“ segir Anna Elísabet.

Tryggingastofnun fjallar ekki um einstök mál. Rifjum þó upp mál Jóhönnu Þorsteinsdóttur. Hún fékk um 20 prósenta búsetuhlutfall hér heima sem þýðir að reiknað er með að 80% komi frá Danmörku. Í hennar tilfelli er ekki um það að ræða vegna þess að allt annað kerfi er við lýði þar nú en áður. Sá sem er í þessari stöðu er dæmdur til að vera á 20% bótum en getur vissulega leitað til sveitarfélagsins um fjárhagslega aðstoð. Anna Elísabet bendir á að örorkumatskerfin í Evrópu séu breytileg. Hvert land sé með sínar reglur. Í sumum löndum sé réttur minni og í öðrum löndum meiri eða ríkari. Nú hafi víða orðið breytingar. Danir hafi t.d. þrengt skilyrði til að fá örorkulífeyri. Hann sé t.d. ekki greiddur fólki undir fertugu.

„Þannig að það má segja að þeir séu rauninni ekki að taka á sig að borga þann hluta sem samningurinn kveður á um.“

Miklar breytingar á síðustu árum

En er það ekki í verkahring Tryggingastofnunar að taka tillit þess ef viðkomandi sem á vissulega rétt í öðru landi samkvæmt EES reglum fær ekki krónu þaðan?

„Við erum bara að skoða þetta. Það hefur orðið gríðarleg breyting á síðastliðnum 5 til 6 árum á almannatryggingalögum í löndunum í kringum okkur. Við erum að skoða hvað er í stöðunni og vinnum það með ráðuneytinu. Eins og gefur að skilja hefur þetta verið framkvæmt svona í aldarfjórðung. Við viljum bara fá skýrar línur um það hvernig við eigum að meðhöndla svona mál,“ segir Anna Elísabet.

Í Speglinum hefur verið nefnt dæmi um mann sem býr í öðru EES landi í 10 ár og önnur 10 ár á Íslandi og er metinn með fulla örorku 36 ára. Búsetuhlutfall hans er um 64% en ef hann hefði komið frá landi utan EES er hlutfallið 102% og hann ætti þar með rétt til fullra bóta frá Tryggingastofnun. Anna Elísabet vísar í EES samninginn sem kveður á um geymdan rétt fólks í Evrópulöndunum sem það á að geta sótt í. Samkomulag er í gildi við Kanada og Bandaríkin. Íslenskar bætur þess sem flytur aftur til Kanada lækka en ekki tilfelli þess sem flytur aftur til Bandaríkjanna. En meginreglan gagnvart löndum utan EES svæðisins er að bætur falla niður við flutning frá Íslandi.

„Þannig að það má segja að þessi framreikningur byggist á því að þú búir á Íslandi á þeim tíma.“

Allar hliðar skoðaðar

Ástæðan fyrir því að þessi mál hafa verið til umfjöllunar í Speglinum er að Umboðsmaður Alþingis sem fór yfir mál Jóhönnu Þorsteinsdóttur, telur að reiknireglur Tryggingastofnunar eigi sér ekki viðhlítandi stoð í lögum né heldur í reglugerðum Evrópusambandsins. Verið er að skoða málið bæði í ráðuneytinu og Tryggingastofnun. Eins og gefur að skilja getur Anna Elísabet ekki sagt hvort breytingar verði gerðar.

„Það eru mjög margar hliðar í þessu sambandi. Til dæmis jafnræðisregla varðandi EES borgara. Ekki endilega bara Íslendinga heldur aðra sem eru búsettir í öðrum Evrópuríkjum. Þannig að við þurfum bara að skoða alla möguleika og allar hliðar sem geta komið upp. Sú vinna er í gangi,“ segir Anna Elísabet.