Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Breytt ásýnd kísilverksmiðju samkvæmt tillögum

11.07.2019 - 06:30
G eftir
Tillaga að fullbyggðri verskmiðju Stakksbergs Mynd: Samráðsgátt Stakksbergs
Tillögur í samráðsgátt Stakksbergs, dótturfélags Arion banka, að áframhaldandi uppbyggingu kísilverksmiðju í Helguvík, sýna breytta ásýnd svæðisins, nái áform þar að lútandi fram að ganga. Forsvarsmaður samtakanna Andstæðingar stóriðju í Helguvík segir málið farsa.

Í samráðsgáttinni má sjá myndir af verksmiðjusvæðinu frá nokkrum sjónarhornum. Frá hverju sjónarhorni er annars vegar sýnd núverandi ásýnd iðnaðarsvæðisins í Helguvík og hins vegar með fyrirhuguðum mannvirkjum fullbyggðar verksmiðju Stakksbergs. Einnig má sjá ásýnd fullbyggðrar verksmiðju og tilgátu að því hvernig fullbyggt iðnaðarsvæði lítur út. Með fullbyggðu iðnaðarsvæði er átt við, auk núverandi mannvirkja, álver Norðuráls og kísilverksmiðju Thorsil. 

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjanesbæ er málið enn í ferli hjá umhverfis- og skipulagsráði, líkt og fréttastofa greindi frá í lok maí. 

Stefna að því að koma í veg fyrir lyktarmengun

Þórður Ólafur Þórðarson, framkvæmdastjóri Stakksbergs, segir að hraði fyrirhugaðrar stækkunar kísilverksmiðjunnar ráðist af því hvernig gangi að afla raforku til framleiðslunnar. Hægt verði að taka annan og þriðja ofninn í notkun nokkuð fljótt, en einhver bið gæti orðið á því að sá fjórði komist í gagnið. Drög að frummatsskýrslu verði vonandi birt á næstu 4 til 6 vikum. Sú hönnun sem fyrirtækið muni notast við komi að langmestu eða öllu leyti í veg fyrir lyktarmengun frá verksmiðjunni. 

Aðspurður um sjónræn áhrif og aukið kolefnisspor fyrirhugaðrar stækkunar segir Þórður að slíkar verksmiðjur verði seint byggðar á þann veg að öllum líki. Hann bendir á hvergi í heiminum sé hægt að framleiða kísil á jafn vistvænan hátt og á Íslandi eða Noregi. Verksmiðjur annars staðar séu knúnar af raforku sem sé fengin með bruna kolefnaeldsneytis.

Segir málið orðið að farsa

Einar Atlason, forsvarsmaður samtakanna Andstæðingar stóriðju í Helguvík, segir málið vera orðið að farsa. Að hans mati skýtur það skökku við að á sama tíma og Arion banki, eigandi Stakksbergs, hafi sett sér háleit markmið um kolefnisjöfnun sé fyrirtækið með áform um uppbyggingu stóriðju sem auki kolefnisspor Íslands um 10%. Einar segir samtökin ætla að fara á fullt í það í lok sumars að undirbúa lögsókn gegn Stakksbergi vegna starfsleyfis félagsins.  

Opið er fyrir athugasemdir inni á samráðsgáttinni og þegar hafa nokkrir lýst óánægju sinni með áformin.

Lyktarmengun þegar United Silicon var starfandi

Upphaflegur eigandi verksmiðjunnar var United Silicon sem er gjaldþrota. Þegar framleiðsla var í verksmiðjunni barst mikil lyktarmengun frá henni og íbúar á Suðurnesjum fundu fyrir óþægindum og veikindum sem talið var að mætti rekja til mengunarinnar. Umhverfisstofnun hafði viðamikið eftirlit með starfseminni og stöðvaði hana haustið 2017. Arion banki var stærsti kröfuhafinn og stefnir Stakksberg, dótturfélag bankans, að því að gera úrbætur á verksmiðjunni og selja hana.

Mynd með færslu
 Mynd: Samráðsgátt Stakksbergs
Mynd með færslu
 Mynd: Samráðsgátt Stakksbergs
Mynd með færslu
 Mynd: Samráðsgátt Stakksbergs
Mynd með færslu
 Mynd: Samráðsgátt Stakksbergs
Mynd með færslu
 Mynd: Samráðsgátt Stakksbergs
Mynd með færslu
 Mynd: Samráðsgátt Stakksbergs
Myndir úr samráðsgátt Stakksbergs um uppbyggingu í Helguvík