Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Breytingar sem eiga að stuðla að langtímaleigu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bæta á húsnæðisöryggi leigjenda með því að koma í veg fyrir óeðlilegar hækkanir á leiguverði og stuðla að langtímaleigu, samkvæmt frumvarpi Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra. Frumvarpið er nú í samráðsgátt stjórnvalda. ASÍ fagnar frumvarpinu.

Frumvarpið er líður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir kjarasamningum, segir á vef félagsmálaráðuneytisins. Ráðherra kynnti frumvarpið á opnum fundi hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun í gær.

Meðallengd leigusamninga 14 mánuðir

Leigusamningar til skamms tíma hafa verið ríkjandi hér á landi og er meðallengd þeirra um fjórtán mánuðir. Með breytingunum er ætlunin að stuðla að gerð langtímaleigusamninga, einkum ótímabundinna samninga og virkari forgangsrétti leigjenda til áframhaldandi leigu. Verði frumvarpið að lögum verða heimildir til að gera tímabundna leigusamninga takmarkaðar verulega með því að heimila aðeins skammtímaleigu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Meðal skilyrða eru að leigusali hafi haft húsnæði til eigin nota en hyggist flytja tímabundið úr því, svo sem vegna náms eða starfs eða að verið sé að leigja húsnæði til námsmanna á vegum lögaðila sem ekki er rekinn í hagnaðarskyni og hefur þjónustu við námsmenn að meginmarkmiði.

Sáttamiðlun til að leysa deilur

Ókeypis sáttamiðlun hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er hluti af þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu. Með sáttamiðlun á að aðstoða aðila leigusamninga við að ná sáttum við tiltekin ágreiningsefni, svo sem leigufjárhæð, áður en deilur komast á að það stig að það þær fari í kæruferli. 

Samkvæmt frumvarpinu á að festa betur í sessi að fylgja eftir þeirri grundvallarreglu húsaleigulaga að leigufjárhæð skuli vera sanngjörn og eðlileg fyrir bæði leigjendur og leigusala. Við mat á því skal líta til markaðsleigu á sambærilegu húsnæði og almenns húsnæðiskostnaðar, svo sem vaxtakostnaðar, skatta og gjalda, staðsetningar, gerðar og ástands leiguhúsnæðis, endurbóta, breytinga, viðhalds og leigutíma. 

Skylt verður að skrá leigusamninga í gagnagrunn

Skráningarskyldu leigusamninga verður komið á og yrðu þeir þá skráðir í nýjan opinberan gagnagrunn stjórnvalda, húsnæðisgrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Upplýsingar um markaðsleigu húsnæðis eftir svæðum og öðrum breytum yrðu birtar af hálfu stofnunarinnar. Það yrði leigusalinn sem ætti að skrá leigusamninginn og við broti gegn skráningarskyldunni yrðu sambærilegar sektir og fyrir brot gegn skráningarskyldu heimagistingar. Upphæð sektanna getur verið frá 10.000 krónum upp í 1.000.000 fyrir hvert brot. Skráning í gagnagrunninn yrði skilyrði skattaívilnunar vegna leigutekna og réttar til húsnæðisbóta, í stað skilyrðis um þinglýsingu leigusamnings, líkt og nú er. 

Forseti ASÍ segir þetta tímamótabreytingar

Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði á fundinum hjá Mannvirkjastofnun í gær að þetta yrðu tímamótabreytingar. Þá sagði hún skráningarskylduna mikilvæga. „Við erum góð í ofboðslega mörgu hérna á Íslandi en við erum agalega léleg þegar kemur að tölfræði, skráningu og utanumhaldi.“ Gott yfirlit yfir húsnæðistöðuna náist með skráningunni.

Mynd með færslu
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Mynd: ASÍ - aðsend mynd

Það hafi gerst að aftur og aftur að ekki hafi verið vitað hvað fólk þurfi á húsnæðismarkaði og því hafi þurft að byrja frá grunni að meta það hverju sinni. „Hingað til hefur leigumarkaðurinn verið hugsaður fyrir námsmenn og fyrir aðra sem tímabundin lausn en með þessum breytingum erum við að skapa aðstæður fyrir alvöru leigumarkað,” sagði Drífa á fundinum í gær.