Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Breytingar á ríkisstjórn kynntar

29.12.2011 - 17:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa báðir boðað til þingflokksfundar á morgun og boðað hefur verið til flokkstjórnarfundar hjá Samfylkingunni annað kvöld. Á fundunum verður lögð fram tillaga að breytingu á ríkisstjórninni sem þingflokkarnir munu greiða atkvæði um.

Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar staðfesti í samtali við fréttastofu að þingflokkur hennar hafi verið boðaður til fundar. 

Þá hafa staðið yfir fundir í stjórnarráðshúsinu í dag.

Eins og fram hefur komið í fréttum hafa þingmenn Hreyfingarinnar fundað með Jóhönnu Sigurðardóttur formanni Samfylkingar og Steingrími J Sigfússyni formanni VG meira og minna í allan gærdag. Oddvitar ríkisstjórnarinnar fóru samkvæmt heimildum fréttastofu fram á að þingmennirnir þrír styddu ríkisstjórnina kæmi til vantrauststillögu.

Ekki náðist lending í þessum viðræðum.

Á heimasíðu Samfylkingarinnar segir að „að bera þurfi breytingar á starfandi ríkisstjórn undir flokksstjórn með sama hætti og gert er við ríkisstjórnarmyndun. Aðeins eitt mál er á dagskrá fundarins, áform um breytingar á ríkisstjórn. Flokksstjórn veitti formanni flokksins umboð í maí 2009 til að gera breytingar á ráðherraliði flokksins, eins og fram kemur í fundargerð flokksstjórnar frá 10. maí 2009.“

Fundur Samfylkingarinnar verður klukkan 18.30 á Hótel Nordica í Reykjavík. 

Sjá má tilkynningu Samfylkingar um fundinn hér.