Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Breytingar á rammaáætlun umdeildar

09.05.2012 - 18:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Sérfræðingar ráðgjafarfyrirtækis telja að þær breytingar sem gerðar hafa verið á rammaáætlun frá því verkefnastjórn lauk við drög að henni kosti samfélagið um 270 milljarða króna. Fjölmargar umsagnir hafa borist Alþingi vegna rammaáætlunar.

Fjölmargir vilja færa fleiri virkjanakosti í bið- eða verndarflokk í rammaáætlun. Aðrir vilja að tillagan verði samhljóma niðurstöðu verkefnastjórnar um rammaáætlun.

Tillagan, sem nú er til umfjöllunar hjá atvinnuveganefnd Alþingis, er í nokkrum atriðum breytt frá því verkefnastjórn um rammaáætlun skilaði henni af sér, nokkrir virkjanakostir hafa verið færðir úr nýtingarflokki í biðflokk en endanleg tillaga byggir meðal annars á málamiðlun milli ríkisstjórnarflokkanna.

Þessum breytingum er mótmælt í mörgum umsögnum og bent á að fagleg niðurstaða verkefnastjórnarinnar hafi átt að vera grunnur að sátt um málaflokkinn. 

Samorka - samtök orku- og veitufyrirtækja gagnrýnir þessa niðurstöðu og segir hana engann grundvöll að sátt. Alþýðusamband Íslands gerir líka við þetta alvarlegar athugasemdir sem og Landsvirkjun, HS Orka, Félag ráðgjafaverkfræðinga, Framkvæmdanefnd Þjórsársveita og nokkrir einstaklingar sem sent hafa atvinnuveganefnd umsögn. Sérfræðingar hjá ráðgjafarfyrirtækinu GAMMA segja í sinni umsögn að þær breytingar sem gerðar voru á tillögu verkefnastjórnarinnar geti kostað samfélagið allt að 270 milljarða króna á næstu fjórum árum.

Fjárfestingar í orkuframleiðslu og flutningi verði 120 milljörðum minni en annars hefði verið og afleidd áhrif um 150 milljörðum minni en annars. Atvinnulífið verði af um 5.000 ársverkum.

En þetta er alls ekki leiðarstefið í öllum umsögnum sem atvinnuveganefnd hefur borist. Fjölmargir einstaklingar hvetja nefndina til að hlífa Sveifluhálsi í Reykjanesfólkvangi og reyndar leggja margir til að svæðið verði frekar gert að eldfjallagarði. Undir þetta taka meðal annars Landvernd, Samtök ferðaþjónustu og Náttúruvaktin í sínum umsögnum.

Vísað er meðal annars til óvissu um áhrif virkjana á svæðinu.Einstaklingar og náttúruverndarsamtök í Skaftárhreppi leggjast gegn virkjanakostum í hreppnum vegna jarðfræðilegrar sérstöðu svæðisins en Íslenskir fjallaleiðsögumenn telja mikilvægt að allt suðurhálendið frá Sekiðarárjökli í austri til Heklu í vestri verði friðað í heild sinni og nýtist útivist og ferðaþjónustu. Framtíðarlandið, Græna netið og all nokkrir einstaklingar leggja til í sínum umsögnum að fleiri virkjanakostir verði færðir úr nýtingarflokki í biðflokk eða úr biðflokki í verndarflokk.