Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Breytingar á LÍN verði gerðar

01.09.2013 - 13:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir að breytingar sem gera átti á úthlutunarrelgum Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði gerðar síðar. Hann segir að niðurskurðurinn sem breytingarnar áttu að taka á, komi til framkvæmda, en ekki sé hægt að segja með hvaða hætti.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í vikunni breytingar á úthlutunarreglum LÍN ólöglegar, en með breytingunum var gerð aukin krafa til námsmanna um námsárangur. Dómnum verði áfrýjað.  Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segist ekki ætla að deila við dómarann, en hann hafi áhyggjur af því hvernig eigi að takast á við fjárlagahallann sem breytingarnar áttu að brúa.

„Já, það er auðvitað höfuðverkurinn og við þurfum að setjast yfir það núna á næstu dögum í ráðuneytinu að fara yfir þessa nýju stöðu.“

Illugi minnir á að niðurstaða dómsins hafi ekki verið sú að fyrirhuguð breyting hafi verið ólögleg, heldur að ákvörðun um hana hefði þurft að liggja fyrir fyrr. Hann segir niðurskurð verða  erfiðan.

„En á meðan staðan er svona þá þurfum við auðvitað að horfa á alla þætti og það er allt undir. Ég hafði ætlað að beita þessari 1,5% hagræðingarkröfu á lánasjóðinn, það komu fyrirmæli frá fjármálaráðherra um það að það yrði að skera allt niður um 1,5%. Nú staðan er svona eftir þennan dóm, við sjáum þá hvað Hæstiréttur segir. En ef að þetta heldur þá þarf bara að bregðast við því. Meira get ég ekki sagt, ég get ekki útlistað það nákvæmlega. En auðvitað er niðurskurður í þessu, eðli málsins samkvæmt, í þessum málaflokkum, menntamálunum. Mér finnst sjálfum hvergi hægt að skera þar niður, en ég verð að gera það.“

Menntamálaráðherra segir að þær breytingar sem til stóð að gera á úthlutunarreglum lánasjóðsins verða gerðar.

„Já, já. Ég held að það sé bara skynsamlegt, að öllu öðru slepptu, að hér á Íslandi séu sömu kröfur um námsframvindu eins og eru á Norðurlöndunum. Og þess vegna var ég alveg sammála niðurstöðu stjórnar sjóðsins að það ætti að gera það. Dómurinn þá þýðir það að það frestast eitthvað aðeins, en það mun þá ganga fram. En það stendur þá bara eftir þessi vandi varðandi fjárlagahallann.“