Brexit-stærðir og tilfinningar

29.01.2020 - 17:00
Brexit · Erlent · ESB · Írland · Spegillinn
Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands. - Mynd: EPA-EFE / TT NEWS AGENCY
Eftir ESB-þjóðaratkvæðagreiðsluna sumarið 2016 stefndi Boris Johnson, þáverandi utanríkisráðherra á áframhaldandi veru Breta í sameinaða ESB markaðnum Stefna Johnsons nú er að ná kostum ESB-aðildar utan ESB, sem fyrr í krafti stærðar og mikilvægis. Í huga Leo Varadkars forsætisráðherra Íra er veruleikinn annar. En ef fiskveiðimálin verða ásteitingarsteinn, eins og stefnir í, þá gæti stærð skipt minna máli en tilfinningar

Í upphafi Brexit lá ekkert á...

Í ávarpi sínu að morgni 24. júní 2016, daginn eftir að meirihluti breskra kjósenda kaus landið úr Evrópusambandinu, sagði einn leiðtogi útgöngusinna, Boris Johnson þá óbreyttur þingmaður, að nú lægi ekkert á, best að taka tíma í útgöngu. – Það kom fljótt í ljós að útgöngustefnan var heldur ekki klár.

Óklár Brexitstefna en það átti þó að vera í innri markaðnum

Haustið 2016 sagði Johnson, þá utanríkisráðherra, í viðtali við tékkneskt blað að líklega yfirgæfu Bretar tollabandalagið en yrðu áfram í innri markaðnum. Þó án fararfrelsis enda mesta bull að frjáls för fólks væri nefnd í Rómarsáttmálanum, grunni Evrópusamvinnunnar. – Reyndar rangt hjá ráðherranum, það er ákvæði um frjálsa för í Rómarsáttmálanum. Eitt af mörgum dæmum um hvað Johnson fer auðveldlega rangt með staðreyndir.

Á Ítalíu sagði Johnson það sama við ítalskan ráðherra um breska aðild að innri markaðnum. Auðvitað myndu Ítalir samþykkja þetta því ekki vildu þeir missa prosecco innflutninginn til Bretlands; fullyrðing sem ítalska ráðherranum fannst móðgandi.

Skýrari sýn í ESB á möguleika og ómöguleika

Þarna um haustið 2016 voru staðreyndir og möguleikar þegar öllu skýrari í ESB eins og þáverandi fjármálaráðherra Hollands og forseti Evruhópsins Jeroen Dijsselbloem útskýrði: Johnson byði kosti, sem væru ekki í boði, til dæmis þetta að vera í innri markaðnum án þess að vera í tollbandalaginu. Kostur sem væri ekki til, Johnson að viðra eitthvað sem væri algjörlega útilokað, sagði Dijsselbloem, sem nefndi þó ekki EES enda fjórfrelsið hluti þess.

Brexit-skilgreining May: hvorki í innri markaðnum né tollabandalaginu

Tíminn leið og eftir jólin 2016 skilgreindi Theresa May forsætisráðherra leið Breta: hvorki aðild að tollabandalaginu né innri markaðnum.

Vonin um sömu gæði utan ESB og í því

Fyrri von Breta lá þó enn í loftinu, sú að hagsmunir einstakra landa um óhindruð viðskipti við Breta væru svo sterkir að auðvitað fengju Bretar, sem fyrr, sömu kjör og í ESB. Þýski bílaiðnaðurinn myndi til dæmis þrýsta þýsku stjórninni í þessa átt. En nei, ekki þannig í pottinn búið eins og Joachim Lang framkvæmdastjóri samtaka þýskra iðnrekenda.

Vissulega væri Bretland mjög mikilvægt viðskiptaland fyrir Þýskaland en það mætti ekki gleyma að ESB löndin 27 væru miklu mikilvægari. Þar lægi orkan og þýsk samstaða, sagði Lang.

Skilyrði ESB um reglur og staðla ESB

May sprakk á Brexit-limminu og nú er Boris Johnson forsætisráðherra, með tryggan þingmeirihluta. Lykilorð ESB í viðskiptasamningum nú eftir Brexit á föstudaginn er jafnræði, sem þýðir að Bretar verði að samþykkja reglur og staðla ESB. Líkingamálið er úr íþróttum, leikvöllurinn á að vera sléttur, ,,level playing field.“ Forsenda, sem Bretar verða að samþykkja vilji þeir ná viðskiptasamningum. Sajid Javid fjármálaráðherra tókst á einni viku að verða tvísaga um þetta atriði.

Tilvistarleg ógnun við Íra

ESB hefur frá upphafi fallist á að það sé langmest í húfi á Írlandi varðandi Brexit. Í viðtali um helgina var Leo Varadkar forsætisráðherra Íra ómyrkur í máli. Brexit án viðskiptasamninga væri tilvistarleg ógnun fyrir Íra. Merkilega hreinskilinn forsætisráðherra því breskir Brexit-sinnar hamra enn á að slík útganga væri ekkert mál fyrir Breta. Spurning hvor afstaðan er hreinskilnari.

Stóra og litla liðið

Og svo enn þetta með lögmál stærðarinnar. Staðreyndin er að í ESB eru 27 lönd, Bretland aðeins eitt land; 450 milljónir í ESB, 60 milljónir í Bretlandi. Ef þetta væri fótbolti, hvort liðið væri þá sigurstranglegra? spurði hinn lágmælti Varadkar.

Samningar í áföngum sama og velja það besta úr

Það er ljóst að við blasa erfiðir samningar Breta og ESB og breska lausnin virðist vera samningar í áföngum. Í eyrum Varadkars hljómar sá möguleiki eins og bæði og, eiga kökuna og borða hana. Semja um þau atriði þar sem Bretar hafa forskot og ekki um annað; það er ekki sanngjarnt og fær engar undirtektir í Evrópu, sagði Varadkar.

Tilfinningarnar fljóta inn í viðræðurnar með fisknum

Alveg síðan 2016 hafa Brexit-sinnar hamrað á stærð og mikilvægi Bretlands en skellt skolleyrum við að utan landsteinanna blasa við órjúfanlegir hagsmunir 27 landa. Og þó, stærðin ræður ekki öllu: fljótlega eftir formlega útgöngu nú á föstudag geti viðskiptaviðræðurnar fljótlega strandað á fiskveiðimálum. Þar sjást hagsmunir, mældir í tölum, vart með stækkunargleri; þar ráða tilfinningarnar og flækja alla útreikninga.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn