Brexit frábært, Nató úrelt, Merkel mikilvæg

epa05711321 US President-elect Donald Trump speaks during a press conference in the lobby of Trump Tower in New York, New York, USA, 11 January 2017. Trump, who is set to take the Oath of Office on 20 January 2017, gave his first press conference in
 Mynd: EPA
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, segist fagna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og lofar skjótum samningum um fríverslun milli Bretlands og Bandaríkjanna. Telur hann líklegt að aðrar þjóðir feti í fótspor Breta og yfirgefi Evrópusambandið, sem sé í raun fyrst og fremst Þjóðverjum til framdráttar. Þá gagnrýnir hann Angelu Merkel, Þýskalandskanslara, fyrir stefnu hennar í flóttamannamálum og segir Atlantshafsbandalagið úrelt samtök.

Þetta kemur fram í viðtölum við þýska blaðið Bild Zeitung og breska blaðið Times. Michael Gove, fyrrverandi dómsmálaráðherra Breta og einarður formælandi Brexit, tók viðtalið fyrir Times. 

Þar segir Trump Breta hafa sýnt af sér mikla skynsemi með því að kjósa með Brexit og gegn áframhaldandi Evrópusambandsaðild. „Þjóðir vilja hafa ákveðna þjóðarvitund, og Bretar vildu styrkja sína ákveðnu þjóðarvitund,“ sagði Trump í viðtalinu. Gove spurði forsetann verðandi, hvort Bretar væru „fremstir í röðinni“ meðal þeirra sem leituðu fríverslunarsamninga við Bandaríkin, og vísaði þar til ummæla Baracks Obama, um að Bretar myndu færast aftast í röðina, færi svo að þeir gengju úr Evrópusambandinu. Trump fullvissaði Gove - og lesendur Times - um að Bretar þyrftu ekki að bíða þess lengi, að hafist yrði handa við smíði samnings, sem væri báðum þjóðunum til hagsbóta. 

Trump sagði Angelu Merkel hafa gert gríðarleg og afdrifarík mistök, þegar hún opnaði Þýskaland fyrir flóttafólki frá Sýrlandi og víðar árið 2015. Allir ættu það þó til að gera mistök, bætti hann við, og undirstrikaði að hann bæri mikla virðingu fyrir Merkel, sem hann segir lang mikilvægasta þjóðarleiðtoga álfunnar. „Ef þú lítur á Evrópusambandið, þá er það Þýskaland - það er í grunninn bara verkfæri fyrir Þýskaland.“ Sá mikli fjöldi flóttafólks sem streymt hefði til Evrópu væri hins vegar að miklu leyti á hennar ábyrgð, og um leið ein helsta ástæða þess að Bretar eru nú á leið út úr Evrópusambandinu, að mati Trumps.

Um Atlantshafsbandalagið sagði hinn verðandi forseti að það væri úrelt, því það hefði verið stofnað fyrir ansi löngu síðan og aðrar þjóðir en Bandaríkin væru ekki að borga sinn sanngjarna skerf til að fjármagna það. Þar að auki hugaði sambandið ekki nægilega vel að baráttunni gegn hryðjuverkum, sagði Trump, sem ítrekað gagnrýndi Atlantshafsbandalagið á svipuðum nótum í kosningabaráttunni.

Verðandi varnarmálaráðherra í stjórn hans, James Mattis, fyrrverandi hershöfðingi, lýsti þeirri sannfæringu sinni fyrir varnarmálanefnd Bandaríkjaþings á föstudag, að Atlantshafsbandalagið hefði margoft sannað gildi sitt og væri mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi