Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bretland: aðgerðir, seint og um síðir

19.03.2020 - 17:50
Mynd: EPA-EFE / EPA
COVID-19 tilfellum fjölgar nú hratt í Bretlandi, staðfest smit nú rúmlega 2600, 103 látnir. Breska stjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir að hafa verið alltof værukær. Nú lofar stjórnin miklum efnahagsaðgerðum en gagnrýnin í þinginu í dag kom ekki frá stjórnarandstöðunni heldur þingmönnum stjórnarflokksins, Íhaldsflokksins.

Dræmur tónn eftir fyrsta neyðarfundinn

Það kom strax í ljós mánudaginn 2. mars, á fyrsta neyðarfundi bresku stjórnarinnar vegna COVID-19 faraldursins, að hún var áberandi óviljug að leggja þungar samgöngukvaðir á landsmenn. Skilaboðin eftir þennan fyrsta neyðarfund voru að stjórnin gæti vissulega gert ýmislegt. Gæti bannað fótboltaleika, lokað skólum en ekkert af þessu yrði gert í bili. 

Borgarstjóri höfuðborgarinnar vill klárari aðgerðir

Aðgerðir undanfarið hafa áfram verið tilmæli stjórnarinnar eftir frumkvæði annarra landshluta, samtaka og fyrirtækja.

Og það skapar vandræði, sagði borgarstjóri höfuðborgarinnar, Sadiq Khan á fundi með borgarstjórninni í morgun. Bann betra en ábendingar. Khan telur að ekkert dugi annað en að fólk hætti að hittast eða vera á ferðinni að nauðsynjalausu. Ekki fara á krána, klúbba, veitingahús og aðra samkomustaði. 

London orðin miðpunktur útbreiðslunnar

London er orðinn miðpunktur úrbreiðslunnar í Bretlandi, sést á staðfestum tilfellum og andlátum. Undanfarinn sólarhring hefur orðrómur um útgöngubann, sem jafnvel herinn yrði látinn framfylgja, farið eins og eldur í sinu um félagsmiðlana. Þessu var algjörlega hafnað á blaðamannafundi í forsætisráðuneytinu í morgun, ekkert slíkt stæði til.

Aðrar þjóðir vilja kveða orðróm og falsfréttir í kútinn

Orðrómur og falsfréttir eru fylgifiskur veirufaraldursins hér eins og annars staðar. Bæði Angela Merkel Þýsklandskanslari og Leo Varadkar forsætisráðherra ávörpuðu þjóðir sínar í vikunni. Bæði brýndu þau fyrir fólki að treysta aðeins upplýsingum opinberra aðila og traustra fjölmiðla. 

Forsætisráðherrann sem ekki sást

Það hefur farið minna fyrir slíkri brýningu í Bretlandi, þar sem það hefur verið stefna stjórnar Boris Johnson frá upphafi að sniðganga fjölmiðla sem mest. Eftir gagnrýni á að Johnson sæist varla byrjaði hann á mánudaginn var að halda daglega blaðamannafundi, þá með ráðherrum og ráðgjöfum stjórnarinnar. 

Aðgerðir stjórnarinnar koma í kjölfar frumkvæðis annarra

Þegar forráðamenn úrvalsdeildarinnar í fótbolta höfðu frestað leikjum komu tilmæli um samkomubann frá bresku stjórninni. Eftir að yfirvöld í Skotlandi, Wales og á Norður-Írlandi hugðust í vikunni loka skólum ákvað breska stjórnin hið sama. Þetta tilkynnti Boris Johnson forsætisráðherra á daglegum blaðamannafundi í gær: Eftir skólann á föstudag, á morgun, verður þeim lokað og þeir lokaðir þar til annað verður tilkynnt, sagði forsætisráðherra.

Skólar opnir fyrir útvalda hópa

Skólar verða þó áfram opnir fyrir börn svokallaðra lykilstarfsmanna. Skilgreiningin hér ekki skýr en á ljóslega við börn starfsfólks í heilbrigðiskerfinu. Börn sem eru félagslega illa stæð, fá til dæmis ókeypis máltíðir í skólanum geta áfram farið í skólann, þó ekki alveg ljóst hvernig þessi börn verði valin úr. 

Skólamenn vildu sjá skýrari skilaboð um próf

Ýmsir skólamenn sakna skýrra ákvarðana um próf, til dæmis prófið, samsvarandi íslenska stúdentsprófinu. Eins prófin sem framhaldsskólarnir byggja sína inntöku á. Það er með þetta eins og margt annað – framkvæmdin þykir óklár. 

Eins og forsætisráðherra undirstrikaði í gær, með því að slá í ræðupúltið, þá telur stjórnin sig þegar hafa gripið til ráðstafana sem nægi til að hægja útbreiðsluna en hún hiki ekki við að grípa til frekari ráðstafana ef þurfi, til að sigra faraldurinn í sameiningu.

Miklu lofað, framkvæmdir óklárari

Í fjárlögunum sem voru kynnt fyrir rúmri viku var bæði launþegum og fyrirtækjum miklu lofað vegna veiruvandans. Fyrr í vikunni bætti Rishi Sunak fjármálaráðherra enn við loforðin á daglega blaðamannafundinum. Englandsbanki reynir sitt, önnur vaxtalækkunin í morgun á stuttum tíma, vextir nú metlágir.

Hörð gagnrýni stjórnarþingmanna á eigin stjórn

Í þinginu í morgun rigndi gagnrýninni yfir stjórnina fyrir loðin loforð. Ekki frá stjórnarandstöðunni heldur frá stjórnarþingmönnum sem komu á framfæri áhyggjum kjósenda – hvernig ættu t.d. atvinnurekendur að tryggja launagreiðslur með lofuðum fyrirgreiðslum. Sama með sjálfstætt starfandi fólk. Stjórnin hefur beðið vinnuveitendur um að segja ekki upp fólki, það þurfi að hugsa um lífið eftir faraldurinn. En fólk og fyrirtæki hafa ekki mikinn tíma til að bíða, eins og þingmennirnir bentu á. Uppsagnir eru þegar hafnar.

Umdeild neyðarlög

Ein veigamesta aðgerð stjórnarinnar eru neyðarlög upp á rúmar 300 blaðsíður, meðal annars leyfi til að safna persónuupplýsingum. Stjórnarandstaðan telur alltof langt gengið þarna, stjórnin hafi þegar víðtækar heimildir til neyðaraðgerða. Lögin hafa engin tímamörk, bent á að það ætti til dæmis að takmarka gildistímann.

Breska stjórnin stendur í stríðu eins og víðar en gagnrýni hennar eigin þingmanna vekur athygli.

 

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir