Breti telur sig hafa sýkst í Ischgl um miðjan janúar

26.03.2020 - 07:23
epa08293578 (FILE) - Tourists enjoy a sunny winter day in front of a restaurant at a ski resort in St. Anton am Arlberg, Austria, 12 January 2012 (reissued 14 March 2020). According to reports, the Austrian government has put popular touristic areas, Heiligenblut am Grossglockner, Paznautal, including Ischgl, and St. Anton under quarantine amid the ongoing Coronavirus crisis.  EPA-EFE/STR AUSTRIA OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Breskur maður, sem fór í skíðaferðalag með þremur vinum sínum til austurríska skíðasvæðisins Ischgl um miðjan janúar, telur sig hafa sýkst af kórónuveirunni. Hann varð veikur þegar hann kom heim og smitaði alla í fjölskyldu sinni. Hinir mennirnir þrír, tveir frá Danmörku og einn frá Minnesota, veiktust einnig þegar þeir komu heim til sín.

Þetta kemur fram á vef Telegraph.

Mál austurríska skíðasvæðisins hefur vakið heimsathygli. Talið er að rekja megi hundruð sýkinga í Danmörku, Noregi, Íslandi og Þýskalandi til skíðasvæðisins. Er það sagt hafa átt stóran þátt í því að veiran breiddist jafn hratt um norðurhluta Evrópu og raun ber vitni.  

Íslensk yfirvöld vöruðu við ferðum til Ischgl þann 5. mars eftir að hópur Íslendinga sem þar hafði verið greindist með COVID-19 sjúkdóminn. Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, hefur sagt að Austurríkismenn hafi tekið fálega í viðvaranir frá Íslandi. 

Sakamálarannsókn er hafin á því hvort fyrirtæki á svæðinu hafi leynt því að einn starfsmaður þess hefði greinst með kórónuveiruna og þá hafa ráðamenn verið sakaðir um að bregðast seint við til að reyna að vernda ferðaþjónustuna.

Á vef Telegraph (gæti þurft áskrift) kemur fram að öll fjölskylda mannsins hafi smitast og nokkur börn í hverfinu hafi sömuleiðis neyðst til að vera heima vegna veikinda. 

Maðurinn segir að líkt og aðrir gestir skíðasvæðisins hafi hann farið á barinn Kitzloch,  þar sem talið er að fyrsta sýkingin hafi komið upp.  Þar hafi verið þröng á þingi, fólk dansað upp á borðum og verið í miklu návígi. Þetta hafi því verið kjörsvæði fyrir veiruna að dreifa sér.

Telegraph tekur fram að hvorki maðurinn né fjölskyldan hafi fengið skimun fyrir sýkingunni en þau hafi verið í samskiptum við blaðið síðustu vikur. Grunur um að veikindi þeirra tengdust kórónuveirunni hafi vaknað eftir fréttir síðustu daga um skíðasvæðið.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi