Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bretar vilja fækka skattaskjólum

04.05.2018 - 06:16
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Bresku Jómfrúreyjar þykja mikil paradís fyrir fólk og fé Mynd: Denise - Flicker
Neðri deild breska þingsins hyggst samþykkja löggjöf til höfuðs skattaskjólum. Lögin kveða á um að bresk yfirráðasvæði á borð við Bresku Jómfrúreyjar og Caymaneyjar skuli framvegis halda og birta lista yfir raunverulega eigendur félaga og fyrirtækja, oftar en ekki hreinna skúffuyrirtækja, sem þar eru á skrá.

Breska stjórnin hefur lagt fram frumvarp gegn peningaþvætti og skattaundanskotum. Nokkrir þingmenn, jafnt úr röðum Verkamannaflokks og Íhaldsflokks, standa að breytingartillögu sem kveður á um fyrrgreinda, opna fyrirtækjaskrá í öllum fjórtán yfirráðasvæðum Bretaveldis utan Evrópu. LJóst er að breytingartillagan nýtur meirihlutafylgis í þinginu og hyggst stjórnin ekki beita sér gegn henni, samkvæmt breskum fjölmiðlum. Umræður um frumvarpið og breytingartillöguna verða í þinginu á þriðjudag.

Lögin gilda ekki um sjálfstjórnarsvæðin á eyjunum Mön, Jersey og Guernsey, þar sem fjársterkir aðilar geyma líka mikið fé, meira og minna utan sjónmáls og seilingar skattayfirvalda.

Franski viðskiptafræðingurinn og háskólaprófessorinn Gabriel Zucman hefur metið það sem svo, að líklega séu sem svarar um tíu prósentum vergrar heimsframleiðslu geymd í skattaskjólum heimsins. Cayman-eyjar og Bresku Jómfrúreyjar hafa verið áberandi í allri umfjöllun um skattaskjól síðustu árin.

Um helmingur allra skúffufyrirtækja og aflandsfélaga sem afhjúpuð voru með birtingu Panamaskjalanna voru til að mynda skráð á Bresku Jómfrúreyjum, einkum á eyjunni Tortólu. Þar á meðal var aflandsfélagið Wintris, sem var í eigu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra Íslands.    

Leiðrétting:

Í upprunalegri útgáfu þessarar fréttar var því haldið fram að löggjöfin hefði þegar verið samþykkt í neðri deild breska þingsins. Sú er ekki raunin, heldur hefur einungis tekist að tryggja nær öruggan meirihluta fyrir henni, og hefur fréttin verið leiðrétt til samræmis við það. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV