Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bretar ræða aðra ESB-þjóðaratkvæðagreiðslu

15.10.2019 - 17:43
Bretaland · Brexit · Erlent
Boris Johnson ávarpar þingheim. - Mynd: EPA-EFE / UK PARLIAMENTARY RECORDING UNIT
Um leið og breska stjórnin gerir tilraun til að semja við Evrópusambandið, á síðustu stundu, gera ýmsir þingmenn sér vonir um að þingmeirihluti náist fyrir annarri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Breta að ESB. Það hafa ekki orðið miklar breytingar á afstöðu kjósenda síðan 2016 en áhugaverðasti hópurinn er kannski sá hópur sem kaus ekki 2016. Í þeim hópi er meirihluti hlynntur ESB-aðild.

Rætt um kosningar – og aðra þjóðaratkvæðagreiðslu

Fyrir utan fyrirhugað Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, þá er það tvennt sem svífur yfir vötnunum í breskum stjórnmálum: hvenær verða kosningar – og verður önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um útgönguna?

Hnútur fljúga um borð í þinginu

Það er gefið að það verður kosið. Stjórn Boris Johnson leiðtoga Íhaldsflokksins og forsætisráðherra vantar 45 þingsæti upp á meirihluta rétt eins og Jeremy Corbyn leiðtogi Verkamannaflokksins minnti forsætisráðherra á í þinginu í gær. Stefnuræða Johnsons kæmi fyrir lítið, hann hefði sífellt orðið undir í þinginu. Á móti hæddi forsætisráðherra Corbyn fyrir að skipta sífellt um skoðun og þora ekki í kosningar.

Er þjóðaratkvæðagreiðsla ráð fyrir ráðvillt þing og þjóð?

Í ljósi komandi kosninga er ákaft spáð  í hvar kjósendur standi í stórmálinu Brexit. Annars vegar af því Brexit gæti orðið stórmál í komandi kosningum. Hins vegar af því það gæti orðið meirihluti í þinginu fyrir að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Breta.

Ein röksemdin er að þingkosningar leysi ekki Brexit vandann því í kosningum muni kjósendur kjósa um fleira en eingöngu Brexit. Eina leiðin fyrir ráðvillt þing og þjóð til að fá óyggjandi svar sé önnur þjóðatkvæðagreiðsla. Og þjóðin ætti líka að fá að kjósa um mögulegan útgöngusamning.

Mjótt á munum í þinginu um annað þjóðaratkvæði

Síðast þegar þingið greiddi atkvæði um aðra þjóðaratkvæðagreiðslu varð tillagan undir með aðeins tólf atkvæða mun. Tölurnar gætu hafa breyst, fleiri styðji þjóðaratkvæði og þingmenn muni reyna að koma fá það samþykkt.

Hugsanlega strax á laugardaginn þegar þingið, sem annars situr aldrei á laugardögum, kemur saman til að taka afstöðu til útgöngu. Ef forsætisráðherra hefur hespað af nýjum útgöngusamningi við ESB verður kosið um hann. Ef ekki, þá mun þingið standa fast á fyrri lögum um að án samnings verði forsætisráðherra að biðja ESB um útgöngufrest, út janúar. Sem forsætisráðherra þvertekur fyrir að gera.

Tvær eða þrjár spurningar á atkvæðaseðlinum

En aftur að þjóðaratkvæði. Ætti þjóðin að fá að greiða atkvæði um nýjan útgöngusamning, þegar og ef hann fæst? Og um hvað ætti þá að spyrja? Bara tvo kosti, að vera eða fara með fyrirliggjandi samningi úr ESB? Eða ætti þriðja spurningin að vera hvort kjósendur styðji samningslausa útgöngu? Og orðalag spurninganna er líka mikilvægt.

Ekkert Brexit, minnkandi traust

Ein svipan á Boris Johnson forsætisráðherra er minnkandi traust, að því lengra sem líður frá atkvæðagreiðslunni 2016 því verr finnst æ fleirum að ríkistjórnin hafi höndlað Brexit. Í maí var svo komið að 80 prósent af þeim sem kusu 2016 að yfirgefa ESB töldu stjórnina hafa klúðrað útgöngu. Aðeins færri töldu ESB hafa höndlað Brexit illa. Könnunin var gerð þegar Theresa May hafði samið við ESB en gat ekki talið breska þingið á sitt samningsband.

Kjósendur sitja við sinn Brexit-keip

En hver er þá afstaðan til ESB? Í atkvæðagreiðslunni 2016 vildu 52 prósent breskra kjósenda yfirgefa ESB, 48 prósent vera. Það leið ekki á löngu þar til skoðanakannanir sýndu að stuðningsmenn aðildar höfðu yfirhöndina og þannig hefur það verið undanfarið ár eða svo. Munurinn mestur um tíu prósentustig, 55 prósent sem vilja vera, 45 prósent vilja fara. Mun oftar sýna kannanir þó að munurinn er of lítill til að vera marktækur.

Þeir sem ekki kusu 2016

Rannsóknir hafa sýnt að kjósendur hafa ekki endilega skipt um skoðun heldur munar mestu um að um tveir af hverjum þremur, sem ekki kusu 2016, voru hallir undir áframhaldandi veru Breta. Árið 2016 var mestur hiti í þeim sem vildu yfirgefa ESB. Nú gæti þunginn legið hinumeginn, hjá þeim sem vilja vera áfram.

Ef annað þjóðaratkvæði þá er stutt í hörkuna

En allt eru þetta vangaveltur – þó annað þjóðaratkvæði sé líklegra en áður er annað mál hvort það verður ofan á. Aðeins ljóst að ef aftur verður efnt til atkvæðagreiðslu um samband Breta við ESB, yrði baráttan sennilega harðari og grimmari en áður hefur sést í kosningum í Bretlandi.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV