Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Bretar kvarta undan íslenskri gospel-stöð

30.01.2016 - 21:01
Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska fjölmiðlafyrirtækið Gospel Channel Evrópa hafi brotið gegn fjölmiðlalögum með sýningu á þætti Peter Popoff í Bretlandi. Popoff kynnir sig sem „nútímaspámann Guðs“ og kveðst geta læknað sjúka með heilögu orði og „kraftaverkabergvatni“. Fjölmiðlanefnd taldi að þátturinn hefði brotið gegn lögum um aðgreiningu auglýsinga og ritstjórnarefnis.

Forsvarsmaður The Good Thinking Society kvartaði til bresku eftirlitsnefndarinnar Ofcom vegna sjónvarpsþáttar sem sýndur var á The Gospel Channel UK. Þátturinn var sagður brjóta gegn nokkrum reglum Ofcom - Popoff var meðal annars sagður hafa fullyrt að fólk hefði fengið peningagreiðslu frá Guði með því að drekka „kraftaverkabergvatnið.“

Ofcom vísaði málinu til innanríkisráðuneytisins sem sendi málið til fjölmiðlanefndar  - fyrirtækið sem er ábyrgt fyrir sýningum þáttanna er staðsett á Íslandi og nefnist Gospel Channel Evrópa.

Fjölmiðlanefnd óskaði eftir skýringum frá fyrirsvarsmanni félagsins - Eiríki Sigurbjörnssyni. Hann sagði í bréfi til fjölmiðlanefndar að enginn hefði kvartað undan því að fara illa út úr samskiptum sínum við Popoff. „Það sem kemur fram í þáttunum stangast ekki á við okkar biblíutrú og skilning á því hvernig hlutirnir eru,“ segir í bréfi Eiríks.

Hann bendir enn fremur á að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem þættir Popoff verði fyrir barðinu á áróðri. Fyrir fimm árum hafi Útvarpsréttarnefnd borist bréf frá „hópi vantrúaðra sem sendu fyrirfram skrifuð bréf frá einstaklingi sem virðist helst hafa þá iðju að gera athugasemdir við kristilegt sjónvarpsefni.“

Fjölmiðlanefnd sendi Eiríki frummat sitt og taldi að stöðin hefði brotið gegn ákvæðum laga sem varða aðgreiningu auglýsinga og ritstjórnarefnis. Og bauð Eiríki að gera athugasemdir við þessa niðurstöðu.

Í bréfi til fjölmiðlanefndar sagði Eiríkur að þetta kæmi sér mjög á óvart - ekkert væri til sölu í þættinum heldur væri um að ræða „trúarlega dagskrá sem ætlað væri að efla trú fólks á spámannlegan boðskap.“ Í þættinum væri vitnað í fjölda fólks um undur og mátt Guðs sem það hefði upplifað vegna þjónustu Popoff. „Vatnið lækni engan heldur hlýðni við spámannlegt orð, sem Popoff undirstriki aftur og aftur að sé biblíulegt.“

Þættir Popoffs eru umdeildir í Bretlandi. Þeir voru allt að því bannaðir fyrir átta árum. Samkvæmt breskum lögum er bannað að misnota trúgirni áhorfenda í trúarlegu dagskrárefni og bresk fjölmiðlanefnd mat það þannig að hann hefði brotið gegn þeim lögum og gegn banni við duldum auglýsingum.

Með því að færa sýningu þáttanna undir íslenska lögsögu lúta þeir íslenskum lögum sem eru ekki jafn ströng og gera ekki jafn ríkar kröfur þegar kemur að trúarlegu efni og Bretar.

Fjölmiðlanefndin taldi aftur á móti að þáttur Popoff væri auglýsing og því hefði Gospel Channel Evrópa brotið gegn íslenskum fjölmiðlalögum.

Fjölmiðlanefnd telur einnig að þótt hugsanlegt sé að trúgjarnir áhorfendur hafi ákveðið að draga úr eða hætta við lyfjagjöf sökum „þeirra órökstuddu og ósönnuðu fullyrðinga,“ sem fram komi í þættinum verði ekki horft framhjá því að áhorfendur séu einungis hvattir til að þess að verða sér úti um hið svokollaða kraftaverkabergvatn en ekki til að draga úr lyfjagjöf eða læknismeðferðum.

Gospel Channel Evrópa slapp við sekt þar sem Eiríkur lýsti því yfir að hann ætli að breyta dagskrárfyrirkomulagi til að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV