Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Bretar fjármagni sæstreng til Íslands

29.10.2015 - 22:30
Mynd: RUV / RUV
Bretar væru hugsanlega reiðubúnir að fjármagna sæstreng til Íslands segir hagfræðingur. Áhætta Íslendinga af verkefninu væri þá lítil sem engin þar sem þörfin fyrir orku er gríðarleg í Evrópu en ofgnótt hér.

Forsætisráðherrar Íslands og Bretlands hafa skipað vinnuhóp sem mun skoða kosti og galla þess að leggja sæstreng á milli landanna tveggja. Niðurstöðum skal skilað eftir hálft ár. 

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði í dag að Íslendingar nytu góðs af sæstreng vegna þess að hér á landi væri gnægð endurnýjanlegrar orku. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, lagði í dag áherslu á sæstrengurinn mætti hvorki leiða til hækkunar orkuverðs á Íslandi né draga úr atvinnutækifærum Íslendinga. 

„Þetta snýst ekki um að afhenta orku annað. Þetta snýst um að skiptast á orku. Þegar að við eigum of mikið þá getum við afhent öðrum og þegar okkur vantar þá getum við tekið á móti,“ segir Hreiðar Guðjónsson hagfræðingur og fjárfestir .

Þeir sem hafi efasemdir um ágæti sæstrengs frá Íslandi óttist áhættuna af fjárfestingunni.

„Það þarf ekki að vera eins og sést á orðum Cameron þá bráðvantar þá þennan möguleika. Þeir væru hugsanlega reiðubúnir að fjármagna þetta og borga fyrir þetta og vera eins og hver annar leigutaki, alveg eins og álver eða eitthvað annað og borga strenginn og vera viðskiptavinur eins og álver eða hver önnur stóriðja.“

Ef það verður kaldur vetur í Bretlandi komi til orkuskerðingar. Það verður einfaldlega ekki hægt að kveikja öll ljós.

„Og þá þyrfti meira að segja að loka ákveðnum verksmiðjum um ákveðinn tíma. Ef það er knýjandi eftirspurn annars staðar og þeir eru tilbúnir að borga miklu hærra verð þá er betra að senda þeim orkuna alveg eins og að við sendum þeim fiskinn frekar heldur en að fá þá alla hingað,“ segir Hreiðar.

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV