Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brestir í hernaðarbandalagi gegn Hútum í Jemen

11.08.2019 - 00:33
epa07766727 An armed member of a separatist southern group celebrates after seizing a military base during clashes with government forces in the southern port city of Aden, Yemen, 10 August 2019.According to reports, separatist forces in southern Yemen, backed by the United Arab Emirates, have seized all military bases belonging to the Saudi-backed Yemeni government in the southern city of Aden after four days of fighting between the two sides.  EPA-EFE/NAJEEB ALMAHBOOBI
Liðsmaður aðskilnaðarsinna fagnar hertöku bækistöðva hersveita, sem hliðhollar eru ríkisstjórn Hadis forseta. Mynd: EPA-EFE - EPA
Sveitir jemenskra aðskilnaðarsinna, sem vilja aukið sjálfstæði fyrir sunnanvert Jemen, tóku í dag öll völd í hafnarborginni Aden. Þetta gerðist eftir nokkurra daga bardaga við aðra vopnaða hópa sem hliðhollir eru ríkisstjórn Abdrabbuhs Mansour Hadis, hópa, sem aðskilnaðarsinnar börðust til skamms tíma með, en ekki gegn.

Njóta aðskilnaðarsinnar stuðnings Sameinuðu arabísku furstadæmanna, sem mynda bandalag með Sádi Aröbum, Jemensforseta og fleirum í stríðinu við uppreisnarsveitir Húta. Aden hefur verið aðsetur ríkisstjórnar Hadis forseta síðan Hútar tóku höfuðborgina Sanaa, en forsetinn sjálfur heldur til í Sádi Arabíu.

Fleygur í bandalagið gegn Hútum

Talsmaður aðskilnaðarsinna greindi AFP-fréttastofunni frá því að hans menn hefðu tekið forsetahöllina í Aden í dag. Um 200 hermenn úr lífverði forsetans sem þar voru veittu enga mótspyrnu og fengu að yfirgefa höllina, frjálsir ferða sinna. Þá hertóku aðskilnaðarsinnar allar bækistöðvar hersveita forsetans, aðsetur innanríkisráðherra stjórnar hans og fleiri mikilvæg mannvirki.

Hadi og stjórn hans saka aðskilnaðarsinna um valdarán og ljóst er að þessi aðgerð þeirra rekur fleyg í hernaðarbandalagið gegn Hútum. Leiðtogar hernaðarbandalagsins kölluðu eftir tafarlausu vopnahléi í borginni og hótuðu að beita hvern þann hervaldi sem bryti gegn því. Samkvæmt ríkisfréttastofu Sádi Arabíu féllust aðskilnaðarsinnar á vopnahléskröfuna.