Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Brellur Daða fyrir Everest í Óskarskapphlaupi

Brellur Daða fyrir Everest í Óskarskapphlaupi

08.12.2015 - 12:36

Höfundar

Tæknibrellurnar sem Daði Einarsson og starfsmenn hans hjá tæknibrellufyrirtækinu RVX unnu fyrir kvikmyndina Everest eru meðal þeirra sem koma til greina í komandi Óskarskapphlaupi. Tæknibrellurnar eru í hópi tuttugu kvikmynda sem berjast um fimm tilnefningar en keppinautarnir eru ekki af verri endanum - Avengers: Age of Ultron, Mad Max: Fury Road og Star Wars: The Force Awakens.

Tilkynnt var um tuttugu myndir seint í gærkvöld sem bandarísku kvikmyndaakademíunni fannst að hefðu borið af í tæknibrellum.

Þetta er í fyrsta skipti sem Daði kemst í þennan hóp. Hann segir í samtali við fréttastofu að þetta sé fyrsti niðurskurður - næst verður skorið niður í tíu myndir og svo verður tilkynnt um miðjan janúar hvaða fimm myndir hljóta tilnefningu. „En það er æðislegt að vera í þessum hópi.“

Um 200 manns komu að gerð tæknibrellanna í myndinni og meðal þess sem starfsfólkið þurfti að takast á við var að búa til tölvuteiknað Everest-fjall.  

Meðal annarra mynda sem koma til greina má nefna fimmtu Mission Impossible-myndina með Tom Cruise, nýjustu James Bond-myndina Spectre og njósnamynd Steven Spielbergs - Bridge of Spies.