Breiðþoturnar stóra ástæðan fyrir falli WOW

31.03.2019 - 16:05
Mynd: Skjáskot/Skype / RÚV
Fyrrverandi stjórnarmaður í WOW air segir að ákvörðun WOW um að hefja flug með Airbus-breiðþotum sé stærsta ástæðan fyrir falli flugfélagsins. Hann segist hafa orðið fyrir vonbrigðum þegar Indigo Partners sleit viðræðum um kaup á hlut í WOW. Hann hafði talið að þetta yrðu góð kaup fyrir Indigo en frábær fyrir WOW. Hann segist ekki vita nákvæmlega hvað varð til þess að Indigo hætti við.

Ben Baldanza sat í stjórn WOW air á árunum 2016 til 2018. Stjórnarseta hans vakti nokkra athygli enda hefur hann mikla reynslu úr flugi og var til að mynda forstjóri Spirit-flugfélagsins í áratug.  

Fimm ástæður fyrir falli WOW air

Baldanza birti grein á samfélagsmiðlinum Linkedin um helgina þar sem hann taldi upp fimm ástæður fyrir falli WOW air. Greinin hefur vakið talsverða athygli hér á landi enda hefur gjaldþrot WOW haft víðtæk áhrif, 1.500 manns hefur verið sagt upp störfum.

Baldanza segir að helsta ástæðan fyrir því að svona fór hafi verið Airbus-breiðþotur sem WOW notaði til að fljúga til fjarlægra staða eins og Indlands og Los Angeles. „Það sem þær gerðu fyrir svona lítið flugfélag eins og WOW er að þær flæktu allan rekstur. Það var flóknara að ráða flugmenn, viðhald varð flóknara og það knúði fram breytingar á rekstrinum því ef vél með þrjú hundruð farþega seinkaði hafði það keðjuverkandi áhrif. Og þess vegna var mjög erfitt að láta þessar vélar skila hagnaði í nógu marga mánuði.“

Baldanza segir að þegar WOW hafi haldið sig við litlu vélarnar og Keflavík sem sína miðstöð hafi rekstur félagsins gengið mjög vel. „En þegar þeir hefja flug með þessar breiðþotur gerði það þeim mjög erfitt um vik. Það eru vissulega aðrar ástæður sem ég rek í grein minni en þessi ákvörðun var þeirra stærsta vandamál.“ Skúli Mogensen hefur sjálfur viðurkennt að þetta hafi verið hans mestu mistök.  

Það besta við WOW voru ferðamennirnir

Baldanza nefnir í grein sinni að mögulega hefði WOW átt að nota meira af erlendu vinnuafli. Hann segist með þessu á engan hátt vilja gera lítið úr Íslendingum, þeir séu frábærir og leggi hart að sér en: „Ísland er lítið land og vinnuafl er dýrt. Það besta sem WOW air gerði fyrir íslenskan efnahag var að koma með ferðamenn til Íslands og félagið hefði haldið áfram að gera það ef það hefði lifað af. “

Til þess að gera það þurfti WOW að halda farmiðaverði niðri og ef það krafðist þess að flytja þrjátíu til fjörutíu störf til landa í Austur-Evrópu þá hefði það verið þess virði. Baldanza segir að WOW hafi þar getað horft til starfa sem viðskiptavinir taki ekki einu sinni eftir. „Viðskiptavinir vilja að vefsíða félagsins sé í lagi en þeir hugsa ekki að þeir séu reiðubúnir að borga tíu dollurum meira ef þeir vitað að vefsíðan hefur verið smíðuð á Íslandi.“

Vonbrigði þegar Indigo hætti við

Baldanza hætti í stjórn WOW í ágúst á síðasta ári en hann segist þá ekki hafa haldið að þetta myndi enda svona. „Ég vissi að þeir þyrftu á fjármagni að halda og þeir voru að leita að því.“ Skömmu seinna hófust fyrstu viðræðurnar við Icelandair en þegar þeim var slitið kom bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners inn í myndina. Framhaldið þekkja síðan flestir. Baldanza tekur skýrt fram að hann hafi hætt vegna hagsmunaárekstra þegar hann tók að sér trúnaðarstörf fyrir JetBlue sem var skráð fyrirtæki. „Ég hætti ekki vegna þess að ég héldi að dagar WOW væru taldir.“

Baldanza hefur unnið talsvert fyrir Indigo Partners sem átti meðal annars lággjaldaflugfélagið Spirit Airlines þar sem Baldanza var forstjóri. Indigo og WOW áttu í viðræðum í nærri fjóra mánuði og hann telur að örlög íslenska flugfélagsins hafi verið ráðin þegar þeim viðræðum var slitið. 

Hann segir það hafa verið vonbrigði fyrir sig þegar ekkert varð af kaupunum því hann hafi talið að þetta yrðu góð kaup fyrir Indigo en frábær fyrir WOW. „Indigo hefur notið mikillar velgengni en þeir eru um leið mjög agaðir. Þeir hafa fjárfest mjög skynsamlega í flugrekstri, meðal annars í WIZZ air. Ég veit ekki nákvæmlega af hverju þetta gekk ekki upp. Indigo eyðir ekki peningum sínum í einhverja vitleysu og þeir eru mjög vandvirkir. Ég veit ekki hvað varð til þess að þeir hættu við en mín ágiskun er sú að þeir hafi séð eitthvað sem truflaði þá eða eitthvað hafi komið upp á í viðræðunum.“

Fargjöld verða dýrari 

Baldanza segir að því miður fyrir Ísland muni fargjöld hækka með brotthvarfi WOW. Það hafi verið ódýrt að ferðast til Íslands og WOW eigi stóran þátt í því með því að halda fargjöldum niðri. „Og það hefur verið gott fyrir íslenskan efnahag.“ Hann hefur ekki trú á því að annað íslenskt flugfélag geti haslað sér völl í flugi yfir Atlantshafið en það sé sannarlega markaður fyrir annað íslenskt félag með flug til Evrópu. Þá megi ekki gleyma því að önnur, erlend, flugfélög fljúgi líka til Íslands frá Evrópu og það kæmi honum ekki á óvart ef ferðum þeirra ætti að fjölga mikið með falli WOW. 

En þótt Baldanza sé gagnrýninn á rekstur WOW þá þykir honum greinilega líka vænt um félagið. „WOW hafði jákvæð áhrif á íslenskan efnahag og margt duglegt fólk vann fyrir félagið. Ég finn til með því fólki sem missti vinnuna eða varð strandaglópar og ég vona að starfsfólk WOW finni fljótt aðra vinnu.“

Hægt er að horfa á viðtalið við Baldanza í heild sinni í spilaranum að ofan. Athugið að viðtalið er óþýtt.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi