Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bréf til sonar míns

Mynd: Pexels / Pexels

Bréf til sonar míns

12.01.2020 - 10:25

Höfundar

Auður Jónsdóttir rithöfundur horfir til framtíðar og glímir við spurninguna „Hvað nú?“ í pistlum sem fluttir eru í Víðsjá á Rás 1 undir yfirskriftinni: Bréf til sonar.

Auður Jónsdóttir skrifar:

Kæri sonur minn,

þegar ég hugsa um framtíðina hugsa ég um þig. Hugsa um þig og spyr út í

loftið: Hvernig verður framtíðin?

Þegar þú fékkst nafnið Leifur Ottó las ég um merkingu nafnanna. Leifur þýðir erfingi, Ottó hinn auðugi, eins og nafnið Auður, og þannig heitirðu sama nafni og ég.

Þessi tvö nöfn saman þýða erfinginn auðugi.

En! Þegar ég hlusta á heimsendaspár vegna hamfara af manna völdum þori ég varla að hugsa framtíðina því eins og staðan er virðist þið börnin aðeins eiga eftir að erfa vandamál. Ekkert barn í dag er raunverulega auðugur erfingi.

Þegar þú varst nýfæddur og hvíldir í fangi mér eins og við værum eitt, heyrði ég lesinn pistil í útvarpinu, kannski hér í Víðsjá, á þá leið að innan hundrað ára yrði heimurinn kominn í kaldakol vegna yfirvofandi hamfara. Þú hvíldir svo varnarlaus í fanginu mínu að það þyrmdi yfir mig. Innilokuð örvænting hamaðist í brjóstinu svo ég þaut að símanum til að hringja í afa þinn í aumri von um að hann gæti róað mig og dregið eilítið úr hryllingnum sem bjó í þessum orðum.

Afi þinn er náttúrufræðingur sem hefur áratugum saman sótt ráðstefnur um umhverfismál vítt og breitt um heiminn. Og hann sagði: Svona er þetta bara!

Hvað með framtíð sonar míns? spurði ég.

Ræðum það seinna, ég má ekki vera að því, ég er að búa til sósu – eitthvað svoleiðis sagði afi þinn því við vorum öll á leið í mat til hans, börn og barnabörn – og gott ef ég skrifaði ekki pistil um það, þá.

Tilgangsleysið að búa til sósu þegar heimurinn stendur á slíkri heljarþröm að barnabörnin þín eiga ef til vill aldrei eftir að geta staðið áhyggjulaus í sporum hans, að búa til sósu handa barnabörnunum sínum.

Á þessu augnabliki þyrmdi yfir mig, tilhugsunin um að börnin þín og barnabörn ættu eftir að búa við eitthvað miklu myrkara en ég gæti gert mér hugarlund. Ef heimurinn verður þá þannig að börnin þín geti leyft sér að eiga börn.

Þegar þetta átti sér stað var Greta Thunberg sennilega að byrja að læra að lesa og skrifa, þessi litla, samt óendanlega stóra stelpa. Sænsk stelpa með vilja Línu Langsokkur og síðar miklu fleiri aðdáendur en nokkur tímann Abba. Þessi litla stelpa er eitt öflugasta tákn sem heimurinn hefur séð, held ég að mér sé óhætt að segja. Og hún segir okkur fullorðna fólkinu að skammast okkar.

Í huga hennar skyggir hirðuleysi okkar á allt annað, þannig að okkar tifandi samfélagsmiðla-flugtilboða-svartaföstudags-hversdagur verður nístandi afkáralegur andspænis ásakandi, einbeittu augnaráði hennar.

Hvaða áhrif á blikið í augunum hennar eftir að hafa á okkur og allt?

Hún er á forsíðum fjölmiðla dag hvern og minnir mig á persónu úr ævintýralegri barnabók og einmitt það er í anda nútímans, augnabliksins á milli fortíðar og framtíðar, því svo margt í heiminum í dag er eins og það sé sprottið út úr skáldsögu fullri af fantasíu.

Og sitthvað er á sinn hátt sprottið úr fantasíunni eins og Donald Trump.

Mig rámar í eftir grein í Der Spiegel fyrir örfáum árum þar sem sagði að hann hefði ekki getað komist til valda í Þýskalandi dagsins í dag því Þjóðverjar tryðu ekki á sjónvarpsfígúrur í skrýtnum raunveruleikaþáttum eins og Bandaríkjamenn. Hann hefði komist til valda í gegnum sjónvarpið í raunveruleikaþáttum – sem þó eru skrumskæling raunveruleikans, tóm fantasía dulbúin í raunveruleika. Og samt ekki, þessi raunveruleikaþáttur varð að óþægilega miklum raunveruleika svo nú takast Trump og Greta á um almenningsálitið á Twitter. Barnalegi forsetinn og fullorðinslega barnið.

Ein forsíða sama blaðs, Der Spiegel, vakti athygli árið 2016, mynd af brennandi höfði Trumps að stíma á jörðina eins og sprengjukúla.

Heimspressan var þaninn af viðbrögðum við honum, nú, nokkrum árum seinna, er hann orðin hluti af hversdegi okkar í embætti valdamesta manns heims; daglega smælar hann framan í heiminn, ýmist að smætta konur á kynferðislegum nótum eða að hóta að tortíma einhverjum úti í heimi, verði honum ekki að vilja sínum.

Hvernig skáldskapur lifir af í heimi þar sem forsíður fjölmiðla minna nú orðið á dagblaðið í galdrakarlaheimi Harry Potters? Þar sem ein spurningin er svo knýjandi að allt annað virkar eins og hjóm eitt.

Spurningin: Hvernig ætlum við að bjarga komandi kynslóðum frá hamförum?

Í heimi sem virðist fúnkera hraðar með hverjum deginum sem líður; falsfréttir fæðast á undrahraða í umhverfi tækninýjunga – sem mannlegt atferli lagar sig að frekar en að skilja til hlýtar; allt gerist svo hratt að galdrarnir eru hraðari en mannsheilinn og umfram getu okkar til að greina haf upplýsinga sem berast okkur stöðug eftir margskonar leiðum.

Geta okkar til að greina upplýsingar, rétt frá röngu, verður sífellt meiri ábyrgðarhlutur, við stöndum og föllum með henni, svo ég anda léttar þegar ég sé þig, son minn, gúggla upplýsingar um upplýsingar. Þú hugsar öðruvísi en ég gerði á þínum aldri, ég kunni ekki að efast um upplýsingar sem voru bornar á borð fyrir mig með ýsu og kartöflum.

Já, ég sé þig, átta ára son minn, leika með tæki eins og ég lék mér með Barbídúkkur. Í hvert sinn sem eitthvað áhugavert ber á góma grípurðu símann til að gúggla upplýsingar um það eða spyrja Siri nánar út í það.

Við erum jú þrjú á heimilinu, ég, þú og Siri, einhvers konar talgervlabúnaður, ef ég fer rétt með, sem kemur í stað heimilishunds. Þú talar ensku við Siri og þegar þig vantar orð gúgglarðu það samstundis því þú gúgglar stundum hraðar en ég hugsa.

Við erum svo háþróuð orðin, samt svo vanmáttug. Hvað eigum við að gera við allar upplýsingarnar?

Þegar ég var jafngömul þér lá ég í bókum eins og Kára litla og Lappa og gömlu Nonnabókunum hans pabba míns. Í sjálfu sér var veröld mín ekki svo fjarri sauðskinnsskóa veröld þeirra þar sem lögmálin virtust fyrirsjáanlegri en nú, samanborið við hversu fjarri veröld þín er þeim heimi. Veröld þar sem þú lest stöðugt eitthvað á netinu, tilkynnir mér óvæntustu hluti sem ég hafði ekki hugmynd um og spyrð mig spurninga sem ég skil ekki; síðan tilkynnirðu mér að þú sért farinn á æfingu hjá Krakkaveldi, pólitískum leikhópi barna, til að fræða fullorðna um loftlagsvána.

Stundum finnst mér þú vera eldri en ég, af því að einhverju leyti skilurðu heiminn í dag betur en ég.

Hvernig bækur á kynslóðin þín eftir að skrifa? Hvernig verða bíómyndirnar ykkar? Hvað eigið þið eftir að fæða af ykkur svona upplýst andspænis hrikalegum veðurskilyrðum; þannig skilyrðum að spár benda ekki aðeins til náttúruhamfara í nálægri framtíð heldur líka að þeim fylgi styrjaldir og stóraukið umfang fólks á flótta, svo eitthvað sé nefnt.

Kannski virðast, fljótu bragði, pólitísk list og pólitísk skrif eiga erindi umfram margt annað í nánustu framtíð. Dægurmálin fara langt með að fóðra fantasíuþörfina, ef þau minna ekki eitthvað eftir JK. Rowling, þá minna þau á eitthvað eftir Kurt Vonnegut eða Margaret Atwood. Stöðugt eitthvað hjákátlega hættulegt í umræðunni.

Þegar Trump komst til valda heyrðist reglulega að nú væri veruleikinn farinn að minna óþægilega á The Handmaids´s Tale eftir Atwood, dystópíu um heim þar sem trúaðir, íhaldssamir karlar hafa tekið völdin og búið til afgerandi feðraveldi þar sem konur eru einungis til undaneldis.

Þessa bók segist Atwood hafa kokkað upp úr veruleikanum, allt hið óhugsandi í henni gerðist einhver tímann einhver staðar, í einhverju samhengi, og því er hin lygilega saga þrátt fyrir allt sönn.

Trump minnir á þessa bók, rétt eins og Greta Thunberg minnir á femínísku hetjuna Línu Langsokkur. Þau, eða frummyndir þeirra, bjuggu í minni okkar áður en þau tóku á sig mynd. Þau sem takast á um öflin í heiminum, að því virðist hið vonda og hið góða, eins og börnin í Hogwarts. Við fylgjumst stöðugt með þeim, sífellt uppteknari af netinu en bókum, óþægilega meðvituð um raunverulegar hætturnar sem búa í framtíðinni, svo raunverulegar að ef okkur tekst ekki að spyrna gegn þeim, þá býður samskonar martröð barnanna okkar og ef Voldemort hefði náð völdum.

Eitt sinn las ég að Dostojevskí hefði þótt sannspár um framtíðina því hann hefði lesið litlu fréttirnar í blöðunum, meðvitaður um að þær ættu eftir að verða forsíðufréttir. Mér datt í hug að fletta netmiðlum fjölmiðla í nokkrum löndum til að vita hvað snögg birtingamynd þeirra segir um framtíðina, þessi síbreytilega hrúga af fyrirsögnum sem renna allar saman svo litlar fréttir verða stórar og stórar litlar.

Ég kíkti inn á vefmiðla Der Spiegel, El Pais, The Washington Post og Politiken. Birtingarmynd núsins á þessum miðlum voru fréttir af Trump sem gæti hafa kynt undir styrjöld á meðan hann var í gólfi og lét drepa einn valdamestamann Íran í drónaárás og svo skógareldar í  Ástralíu – sem eru sagðir stafa af loftlagsbreytingum. Átralía brennur, stóð einhver staðar.

Þessar helstu fréttir miðlanna slógu ekki á óttann um að Greta Thunberg hafi rétt fyrir sér þegar hún bendir á okkur fullorðna fólkið og segir okkur að skammast okkar.

Óttann um að við höfum eytt framtíðarvonum hennar og þín – litla stráksins míns – sem liggur sofandi við hlið mér á meðan ég skrifa þetta og vona að þetta sé allt ímyndun. Bull í kollinum á mér. Ég reyni að segja við sjálfa mig að ég sé bara að fabúlera, það sé allt í lagi með veruleikann, hann sé ekki flóknari en hann virðist í fljótu bragði.

Þetta! Kaffiilmur í loftinu, dynkir í vinnuvélum sem byrjuðu snemma að laga göturnar út, skóli eftir klukkutíma, ég á leið í fyrsta tíma ársins í ræktinni.

Er ekki allt í lagi með lífið?

Nei! segir lítil en samt svo stór stelpa á ensku með sænskum hreim.

Og ef ég myndi spyrja þig, átta ára son minn, hvort það væri ekki allt í lagi með lífið, framtíðina, okkur ... værirðu vís til að segja: Spyrjum Siri.

Og Siri svarar, eins og talandi hattur eða bók svarar Harry Potter, þrátt fyrir allt er ekki hægt að segja annað en nútíminn sé ævintýralegur. Svo ævintýralegur að ég held í vonina að okkur takist að galdra ráð við okkur sjálfum. Og svo þú verðir ekki alltof hræddur þá vil ég líka segja að nú er svo margt betra en það hefur nokkur tímann verið, við skiljum svo margt sem við skildum ekki áður og nú geta heilarnir í okkur talað við tæki og í samspili því á kannski eitthvað líka stórkostlegt eftir að gerast. Ég leyfi mér að trúa. Því ég trúi ennþá á ævintýrið. Að morgundagurinn geti komið okkur á óvart, líka á góðan hátt. En það segi ég bara við þig því þú ert sonur minn og ef ég tek frá þér vonina um góða framtíð, þá hverfur allt.

Ég veit ekkert.

Ég vona.

Ég óttast.

Ég veit aðeins eitt, að hugmyndaflug mitt á aldrei eftir að ná að fanga framtíðina frekar en hugarflug fólks á sautjándu öld hefði getað séð fyrir sér tækni, ógnir og furður dagsins í dag.

Ég spyr Siri.

Og Siri svarar: Þú ert auðug að eiga erfingja. Hann er framtíðin, ekki þú.