Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bráðnun jökla orðin „ímynd loftslagshlýnunar“

20.08.2019 - 11:15
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Bráðnun jökla er orðin ímynd loftslagshlýnunar í heiminum. Þetta segir forseti Íslands. Hann segir að þegar skilaboð séu sett upp með skýrum hætti sé líklegra að boðskapurinn nái til þeirra sem þurfa að meðtaka hann.

Yfir hundrað manns gengu upp á Ok á sunnudaginn þar sem afhjúpaður var minnisvarði um jökulinn sem eitt sinn var. Fjallað hefur verið um athöfnina í fjölmiðlum víða um heim. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir að athöfnin á Oki hafi vakið eins mikla athygli og raun ber vitni, vegna þess að skilaboðin séu sett upp með mjög skýrum hætti. 

„Þarna sjáum við svart á hvítu vægi hinna táknrænu aðgerða,“ segir Guðni. „Bráðnun jökla er orðin að nokkurs konar ímynd loftslagshlýnunar, loftslagsvár. Og þess vegna held ég að þessi atburður veki eins mikla athygli og raun ber vitni.“

Heldurðu að þetta skipti máli?

„Það hygg ég nú. Stundum þarf skýr tákn til þess að átta sig á umfangi sem er kannski svo viðamikið að það er erfitt að festa hönd á því. En þegar hægt er að setja skilaboðin upp með svona skýrum hætti, þá er kannski líklegra að boðskapurinn nái til þeirra sem þurfa að meðtaka hann.“

Þoka málum í rétta átt

Nú er fjöldi þjóðarleiðtoga hér á landi, ætlar þú eitthvað að beita þér eða ræða þetta við þá?

„Ekki þannig að hinn horfni jökull Ok verði mál málanna. En í öllum viðræðum á alþjóðavettvangi núna eru umhverfismál og loftslagsmál í brennidepli. Það gefur auga leið. Og þá er ekki aðalatriðið hversu trúaðir eða vantrúaðir menn eru á verstu spár um framtíð jarðar og mannkyns, heldur hitt að breytingar eiga sér stað og við þurfum að vera opin fyrir því sem við getum þó gert. Og það held ég að allir séu sammála um að ber að gera þegar góða gesti ber að garði að utan.“ 

Finnst þér þetta jákvætt, þessi athygli sem þetta mál er að fá, og aðkoma Íslendinga að því?

„Já ég hygg að það sé ekki hægt að kvarta undan því að Ísland sé vettvangur táknrænna viðburða af þessu tagi. Og við eigum að vona að við getum þá þokað málum í rétta átt,“ segir Guðni.