Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bráðabirgðasamkomulag í höfn við Boeing

20.09.2019 - 17:27
Mynd með færslu
 Mynd: Flickr/BriYYZ
Icelandair Group hefur gert bráðabirgðasamkomulag við bandaríska flugvélaframleiðandann Boeing um bætur fyrir hluta þess tjóns sem félagið hefur orðið fyrir vegna kyrrsetningar Boeing 737-MAX vélanna.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér nú síðdegis. Þar segir að upplýsingar um samkomulagið séu trúnaðarmál og að viðræður við Boeing munu halda áfram um að fá heildartjón vegna kyrrsetningarinnar bætt.

Eins og fram kom í uppgjöri annars ársfjórðungs hjá Icelandair Group námu þegar áætluð áhrif vegna kyrrsetningarinnar um 140 milljónum Bandaríkjadala fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT). Hafa þessi áhrif aukist á undanförnum mánuðum þar sem vélarnar eru enn kyrrsettar.

Í dag, að teknu tilliti til þess samkomulags sem nú hefur náðst, metur Icelandair Group tjónið eftir sem áður á um 135 milljónir Bandaríkjadala. Það nemur tæpum 17 milljörðum króna.

Icelandair Group segir að viðræður munu halda áfram við Boeing um að fá allt það tjón bætt sem kyrrsetning MAX-vélanna hefur valdið félaginu. Afkomuspá Icelandair Group fyrir árið 2019 stendur óbreytt.