Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Botn Bárðarbunguöskju seig um 25 sm

13.09.2014 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Botn Bárðarbunguöskju seig um 25 sentímetra á sama tíma og þar varð skjálfti upp á 4,9. Þetta sýnir GPS - mælir sem komið var fyrir ofan á bungunni í fyrradag. Enn er talsverð vikrni í gosinu í Holuhrauni en dregið hefur úr skjálftavirkni við kvikuganginn. Enn skelfur þó í Bárðarbungu.

Spár Veðurstofunnar gefa til kynna að styrkur brennisteinsdíoxíðs frá eldgosinu í Holuhrauni verði mikill, frá Héraði að norðanverðum Austfjörðum til kvölds, en síðan færist mengunarsvæðið norður í Mývatnssveit og verði frá Langanesi að Tjörnesi á morgun. Ekki er útilokað að mengunarinnar gæti á stærra svæði. Veðurstofan uppfærir spárnar tvisvar á dag. Það er hægt að nálgast þær á vefnum vedur.is og einnig er hægt að fylgjast með mengunarmælingum á vefnum loftgæði.is 

Aldrei hefur mælst viðlíka mengun og á Austfjörðum í gærkvöld. Guðfinnur Sigurvinsson upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar segir að rétt fyrir klukkan tíu hafi mælir á Reyðarfirði sýnt að styrkur brennisteinsdíoxíðs hafi verið kominn yfir eittþúsund míkrógrömm á rúmmetra. Klukkutíma síðar hafi mælst 4000 míkrógrömm á rúmmetra. „Eina ráðið til að bregðast við þessu er að fólk geti komið sér inn, loka gluggum og hækka í ofnum,“ segir Guðfinnur. Þeir sem eru úti við ættu alls ekki að vera svo langt frá bifreið eða húsi að þeir geti ekki komið sér í skjól þegar mengun aukist.

Þeir sem verði að fara út á meðan mengunarský liggi yfir ættu að vera með rakan klút meðferðis til að bera fyrir vit sér. Guðfinnur bendir á að óhætt sé að lækka í ofnum, þegar mengunartoppur hefur gengið yfir. Hann brýnir fyrir fólki að fylgjast vel með fjölmiðlum, veðurspám og Facebooksíðu Umhverfisstofnunar þar sem upplýsingar um stöðu mála séu settar inn. 

Nú eru mælar á Reyðarfirði og á Egilsstöðum. Guðfinnur segir að stofnunin myndi vilja hafa fleiri mæla og verið sé að vinna í því. En mælarnir tveir veiti ágætar upplýsingar. Þó að ekki sé hægt að kortleggja samstundis hvernig mengun leggi yfir byggðalög sé hægt að meta styrk mengunarinnar út frá mælingunum. Það sé mikilvægt að íbúða í nágrenni við Reyðarfjörð og Egilsstaði fylgist með mælingum þaðan og taki þær til sín.