Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bótamáli gegn Ólafi og Hreiðari vísað frá dómi

18.10.2019 - 15:12
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag frá dómi tveimur skaðabótamálum sem Samtök sparifjáreigenda höfðuðu vegna hruns Kaupþings og mála sem því tengjast. Samtökin kröfðu þá Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra bankans, og Ólaf Ólafsson, einn aðaleiganda Kaupþings, um rúmar 900 milljónir hvoran um sig. Samtökin töldu að með lögbrotum sínum á mánuðunum fyrir hrun hefðu Ólafur og Hreiðar Már skaðað hagsmuni hluthafa í bankanum.

Málshöfðunin byggði á viðskiptum Stapa lífeyrissjóðs með hlutabréf í Kaupþingi fyrir hrun. Stefnendur sögðu að dómar í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings og fléttunni í al Thani-málinu sýndu að aðstandendur bankans hefðu haldið uppi hlutafjárverði með ólögmætum hætti. Þetta hefði leitt til þess að lífeyrissjóðurinn keypti hlutabréf í bankanum á of háu verði og að stjórnendur hans hefðu verið blekktir til að selja ekki bréf sín í bankanum þegar tilkynnt var um kaup al Thanis.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ekki sýnt fram á tjón og hagnaður ekki tiltekinn

Hreiðar Már og Ólafur höfnuðu báðir bótakröfunni og kröfðust frávísunar málsins. Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur dæmdi þeim í vil í dag.

Dómarinn tiltekur meðal annars að ekki sé fjallað um hugsanlegan hagnað Stapa af hlutafjáreigninni áður en hin ólöglega markaðsmisnotkun átti sér stað. Að auki hafi Stapi ekki aðeins keypt hlutabréf í Kaupþingi á tímabilinu sem var undir í dómsmálinu heldur líka selt hlutabréf. Því hafi sjóðurinn ekki aðeins greitt hærra verð en ella heldur líka fengið hærra verð en ella. Þá hafnar dómari þeim rökum að lífeyrissjóðurinn hafi verið blekktur til að selja ekki bréf sín í Kaupþingi vegna al Thani-málsins. Ekkert hafi verið sýnt fram á að slíkt hafi verið til umræðu innan sjóðsins og að auki hafi sjóðurinn selt hlutabréf eftir að tilkynnt var um kaup al Thanis, sem voru síðar dæmd markaðsmisnotkun. Því hefði sjóðurinn selt bréf á hærra verði eftir al Thani tilkynninguna en annars hefði verið. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem höfðað er mál gegn Ólafi og Hreiðari Má vegna kaupanna. Fyrri málshöfðun lauk með frávísun. Það gerðist líka í dag þegar dómari vísaði báðum málunum, gegn Ólafi og Hreiðari Má frá vegna vanreifunar.