Börnin okkar eigi ekki að vera tilraunadýr

Mynd: RÚV / RÚV

Börnin okkar eigi ekki að vera tilraunadýr

19.03.2020 - 11:40

Höfundar

Samfélagið hefur alla burði til að mennta íslensk börn í bestu skólunum en áherslurnar eru kolrangar, að mati Hermundar Sigmundssonar prófessors í lífeðlislegri sálfræði. Hann er uggandi yfir versnandi læsi íslenskra barna og segir að nú þurfi að grípa til aðgerða. „En ég er ekki vongóður eins og staðan er í dag,” segir hann.

Niðurstöður PISA-könnunarinnar sem kynntar voru í fyrra sýna enn einu sinni að lesskilningur grunnskólabarna á Íslandi hefur daprast síðustu ár. Hermundur hefur sterkar skoðanir á því hvernig hægt væri að snúa þeirri þróun við og eru þær skoðanir studdar vísindalegri þekkingu. Í þættinum Okkar á milli sem er á dagskrá RÚV í kvöld segist hann þó ekki bjartsýnn á að sjá neinar breytingar í nánustu framtíð. „Ég sé ekki neinar aðgerðir síðustu árin sem benda til þess,” segir hann alvarlegur.

Sjálfur hélt hann fyrirlestur nýverið hjá Samtökum atvinnulífsins sem nefnist einfaldlega Læsi og sýndi þar með pílu sem bendir nokkuð bratt niður á við, hvernig staðan hefur versnað hratt frá árinu 2000. „Pílan bara heldur áfram. Ef við gerum ekki drastískar breytingar og fáum fókusinn inn í skólastofuna og á börnin inni í skólastofunni náum við ekki að snúa þessu,” segir Hermundur. Hann telur nokkuð öruggt að næsta PISA könnun eigi einnig eftir að sýna fram á að ástandið fari versnandi. „Við náðum að sparka aðeins frá í sambandi við stærðfræðina og vonandi heldur það áfram upp á við. En landsbyggðin er til dæmis í mjög slæmum málum. Ég er ekki vongóður eins og staðan er í dag.”

Það er þó ekki öll nótt úti enn og Hermundur bendir á magnaðan árangur sem Íslendingar hafa náð til dæmis í íþróttum og listalífinu. Árangur sem eigi rætur að rekja til öflugs ungmennastarfs sem skólakerfið megi taka sér til fyrirmyndar. „Þú sérð til dæmis Hildi núna með Óskarsverðlaun, þetta sýnir möguleikann á að ná árangri á ýmsum sviðum,” segir hann. „Við þurfum að læra af þessu fólki. Reynum að nota eitthvað af þessu inn í skólakerfið og reynum að ná árangri í lestrinum. Við ættum að eiga bestu skólana miðað við það fjármagn sem fer inn í skólana. Það þarf bara smá áherslubreytingar og að forgangsraða aðeins.”

Hermundur Sigmundsson er gestur Sigmars Guðmundssonar í þættinum Okkar á milli sem sýndur er á RÚV kl. 22:20.

Tengdar fréttir

Mannlíf

„Vissum ekki hvort hún myndi geta lært að tala“

Menningarefni

Tolli notaði kannabis í krabbameinsmeðferð

Menningarefni

Erfitt að horfa upp á sína nánustu í þessu ástandi