Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Bornar saman bækur vegna Icesave

21.02.2012 - 21:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslensk stjórnvöld hafa fengið frest til 8. mars til að skila greinargerð í Icesave málinu til EFTA dómstólsins.

Lögfræðingateymið sem vinnur að vörnum Íslands í Icesavemálinu sem nú er komið til EFTA dómstólsins bar saman bækur sínar í utanríkisráðuneytinu í dag, þeirra á meðal var Tim Ward, sem flytja mun málið fyrir Íslands hönd. Upphaflega höfðu stjórnvöld frest þangað til í gær að skila greinargerð sinni í málinu til dómstólsins en sá frestur hefur verið framlengdur til áttunda mars.

Jóhannes karl Sveinsson, lögfræðingur, segir að verið sé að leggja lokahönd á drög sem áætlað sé að verði tilbúin í næstu viku til kynningar og samráðs um lokagerð greinargerðarinnar.

Eftir að greinargerðinni hefur verið skilað fær Eftirlitsstofnun EFTA fjórar vikur til að skila andsvörum. Íslensk stjórnvöld fá svo frest til að gera athugasemdir við þau. Munnlegur málflutningur fer svo fram fyrir EFTA dómstólnum öðru hvoru megin við sumarleyfi dómstólsins.