Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Börn þurfa að bíða í ár eftir greiningu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um 330 börn eru á biðlista hjá Þroska- og hegðunarstöðinni sem býður upp á greiningar á röskunum líkt og ADHD eða öðrum frávikum í þroska eða hegðun. Allt að tólf mánaða biðtími er eftir þjónustunni. Börn sem þurfa að bíða lengi eftir greiningu eiga á meiri hættu á að þróa með sér ýmis konar vandamál.

Elín H. Hinkriksdóttir, formaður ADHD samtakanna, segir þetta börn með verulegan vanda sem birtist á heimilum og í skólum. Mörg þeirra bíða eftir ADHD greiningu og meðferð í framhaldi af því. Biðtími hafi verið of langur í of langan tíma.

Stærsti hópurinn þarf á þessari þjónustu að halda

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2016 segir að geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga megi skipta í þrjú stig: grunn-, ítar- og sérþjónustu. Hverju þónustustigi fyrir sig er ætlað að sinna tilteknum hópi skjólstæðinga sem glíma við misalvarlegan geðheilsuvanda og kalla á ólík úrræði.

Þroska- og hegðunarstöðin er annars stigs þjónusta, þar sem hún  tekur nú við stærsta hóp þeirra barna sem þurfa á ítarþjónustu að halda. Í skýrslunni segir að segir að 15-20% barna þurfi einhverntíma á ævinni á slíkri ítarþjónustu að halda og miðað við fjölda landsmanna það ár var reiknað með að það væru um 12-16 þúsund börn.

Þá segir jafnframt að skortur á skýrri leiðsögn, skilvirku skipulagi og heilstæðri stefnu virðist hafa leitt til þess að vissir hópar barna og unglinga hafa staðið uppi án skýrra úrræða á öðru og þriðja þjónustustigi.

Ekki enn verið skilgreint þremur árum seinna

Gyða Haraldsdóttir, forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvarinnar, segir helsta vandann vera að hlutverk annars stigs þjónustunnar hafi ekki verið skilgreint hérlendis, þrátt fyrir að þrjú ár séu að skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út, sem benti á þessa annmarka.

Hlutverkið sé hins vegar skilgreint á af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni sem þjónusta sem eigi að sinna öllum börnum sem þurfi ítarþjónustu vegna geðheilbrigðis. Hún segir skilgreininguna grunninn að því að þjónustan geti orðið nógu vel mönnuð til að hægt sé að sinna öllum.

Börnin geti þróað með sér alvarlegan vanda

Samkvæmt Elínu, formanni ADHD samtakanna, vindur vandi barna sem þurfa að bíða upp á sig, og getur orðið illviðráðanlegur. Foreldrar þeirra kljást iðulega við kvíða og streitu. Þá geti barnið dregist aftur úr í námi og félagsleg staða þess hríðversnað.

Rannsóknir hafi sýnt að því fyrr á uppvaxtarárunum sem ADHD greinist og meðferð hefst í kjölfarið minnkar áhætta á alvarlegum fylgiröskunum sem hamlað geta þroska barns. Þegar barn þarf að bíða lengi eftir greiningu eykskt hætta á brottfalli úr framhaldsskóla og líkur á að einstaklingurinn þrói með sér fíkn eða önnur vandamál.

Skortur á fjármagni og mannekla

Viðvarandi óvissa ríki um framtíð starfsemi Þroska- og hegðunarstöðvarinnar þar sem hún hafi hvorki haft nægilegt fjármagn eða mannafla til að sinna þeim fjölda erinda sem berast. Þá hefur þjónusta við landsbyggðina sér í lagi dregist saman, en stöðinni er ætlað að sinna þeim börnum sem ekkki geta sótt þjónustuna í heimabyggð. Um þrjátíu prósent tilvísana á stöðina koma frá landsbyggðinni.

En það eru ekki bara börnin sem þurfa að bíða því það er allt að því tveggja og hálfs árs bið eftir greiningu hjá ADHD teymi Landsspítalans, sem greinir fullorðna. Unnur Jakobsdóttir Smári teymisstjóri segir ástæðuna vera fjárskort og manneklu. Sumir uppfylli þó skilyrði til að vera í forgangi, meðal annars þeir sem eru undir 25 ára og hafi ekki getað sinnt námi, og fái því þjónustu mun fyrr.

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður