Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Börn send út þrátt fyrir mikla loftmengun

05.11.2019 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Börn í leikskólum á Akureyri fóru mörg hver út að leika í gær, í mikilli loftmengun. Börn og viðkvæmt fólk var varað við því að vera úti nálægt umferðargötum. Aðeins einn loftgæðamælir er á Akureyri svo erfitt getur verið fyrir skólastjóra að meta styrk svifryks á hverjum stað fyrir sig.

Það vakti athygli á Akureyri í gær að leikskólabörn fóru út að leika þrátt fyrir mikið svifryk og viðvaranir þess efnis. Erna Rós Ingvarsdóttir, verkefnastjóri leikskóla á fræðslusviði segir að Akureyrarbær fari eftir viðmiðum Umhverfisstofnunar og sendi viðvörun til leikskóla þegar gildi fari hækkandi. Það sé svo í höndum skólastjóra hvort börn fari út að leika, þeir þurfi að meta stöðuna hver fyrir sig.

Gildin fóru hæst í 207 í gær

Samkvæmt viðmiðum frá Umhverfisstofnun getur fólk með asma fundið fyrir einkennum þegar styrkur svifryks fer yfir 50 µg/m³. Fari þau yfir hundrað á fólk með viðkvæm öndunarfæri ekki að vera í nálægð við umferðargötur. Þegar styrkurinn er farinn yfir 150 µg/m³ getur jafnvel heilbrigt fólk fundið fyrir óþægindum. Í gær var styrkurinn í loftgæðamæli við Strandgötu yfir 100 frá klukkan níu í gærmorgun til klukkan 17. Hæst fóru gildin í 207 um þrjúleytið.

Þurfi líka að horfa til fjarlægðar og vindáttar

Erna Rós segir þó ekki aðeins hægt að horfa á tölurnar. Það þurfi að horfa á staðsetninguna á mælinum sem sýni tölurnar og fjarlægð skólans frá honum. Þá þurfi líka að huga að vindátt. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun munar um hverja 10 metra frá mælinum. Í 100-200 metrum frá mæli sé mengunin farin að minnka mjög mikið. Áhrifin geti þó verið mælanleg í 400 metra fjarlægð frá mæli.

Einungis einn mælir á Akureyri

Í sumum leikskólum fóru börn í útiveru í gær. Anna Lilja Sævarsdóttir leikskólastjóri á Iðavelli segir viðkvæmum og ungum börnum hafa verið haldið inni í gær samkvæmt ráðleggingum frá Akureyrarbæ. Hún segir þau fylgjast vel með og taka svifryksmengun alvarlega. Það sé hins vegar erfitt að meta styrk á hverjum stað fyrir sig því aðeins einn mælir sé í bænum og það muni miklu um styrk svifryks á stuttri vegalend.

Jón Birgir Gunnlaugsson verkefnastjóri umhverfismála hjá Akureyrarbæ segir mikla þörf á fleiri mælum, það sé alltaf verið að skoða þann möguleika. Akureyrarbær hafi reynt að fá Umhverfisstofnun til að deila kostnaði sem sé um 15 milljónir við einn mæli, það hafi ekki gengið eftir. Þetta komi vonandi til með að breytast í framtíðinni.