Börn send heim úr leikskóla vegna manneklu

28.09.2017 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Ekki er hægt að senda börn á leikskóla í Vík í Mýrdal nema hluta úr viku vegna þess að leikskólakennara vantar til starfa. Sveitarstjóri segir að húsnæðisskortur torveldi ráðningar starfsfólks. 

Hlutdeild landsbyggðarinnar í nýbyggingum hefur dregist verulega saman eftir hrun og er húsnæðisskortur víða um land. Sums staðar hafa atvinnurekendur misst af starfsfólki vegna skorts á íbúðum. Í Vík í Mýrdal hefur fólki fjölgað hratt á undanförnum árum en nýtt húsnæði hefur ekki fylgt.

Geta ekki lofað nýju starfsfólki húsnæði

Ásgeir Magnússon sveitarstjóri segir að víða vanti starfsfólk og húsnæðisskortur setji strik í reikninginn. „Við höfum verið að auglýsa eftir starfsfólki og það er svolítið erfitt þegar þú auglýsir eftir starfsfólki og getur ekki bent þeim á að það bíði þeirra húsnæði hér. En það hefur náttúrulega verið að flytja til okkar allt þetta fólk og það segir sig sjálft að það þarf húsnæði,“ segir Ásgeir. 

Sveitarfélagið hafi beitt sér fyrir fjölgun íbúða, en það taki tíma. Sárlega vantar starfsfólk í leikskólann í Vík, en þar hefur enginn faglærður leikskólakennari starfað í rúmt ár. „Og svo þegar ofan á bætast veikindi þá urðum við að grípa til þess úrræðis að einhver börn yrðu send heim,“ segir Ásgeir.  

 

Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Níels Kjartansson - RÚV

Börn send heim eftir stafrófsröð

Guðrún Hildur Kolbeins á barn á leikskólanum, sem hún þarf að hafa heima hluta úr viku vegna manneklu. „Börnin eru send heim, bara eftir stafrófsröð, og ég held það sé að meðaltali tvisvar í viku sem þau fara heim,“ segir Guðrún. 

Yngra barn hennar er á biðlista eftir að komast inn, en ekki er útlit fyrir að það takist í bráð og því hefur hún þurft að framlengja fæðingarorlofið. „Þetta er náttúrulega ótrúlega dýrt að þurfa að vera heima og taka sér launalaust leyfi. Og svo þegar ég fer aftur að vinna þá verður þetta púsluspil á fjölskyldunni,“ segir Guðrún.  

 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi