Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Börn kvarta undan myndbirtingum foreldra

08.07.2019 - 09:03
Mynd með færslu
Salvör Nordal, umboðsmaður barna. Mynd: RÚV
Börn hafa kvartað til umboðsmanns barna undan því að foreldrar þeirra birti myndir af þeim á samfélagsmiðlum. Umboðsmaður barna hefur gefið út leiðbeiningar til foreldra um birtingu efnis á samfélagsmiðlum.

Rætt var við Salvöru Nordal, umboðsmann barna, á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

„Við fáum ýmsar ábendingar um þessi mál, ekki síst frá börnunum sjálfum þar sem þau eru að spyrja og kvarta undan því að það sé verið að birta myndir, t.d. að foreldrar birti alls konar efni um þau á samfélagsmiðlum, sem þau eru kannski ekki sátt við. Við fengum dæmi fyrir nokkrum misserum síðan þar sem var stúlka í grunnskóla sem velti því fyrir sér hvort móðir hennar hefði mátt birta einkunnir hennar á Facebook. Hún hafði staðið sig mjög vel í skóla, það var ekki vandamálið. Hún vildi bara ekki að þessar einkunnir væru birtar með þessum hætti og mamma hennar hafði ekki spurt. Það er verið að birta alls konar myndir sem koma til með að lifa á miðlunum um ókomin ár og þau eiga eftir að lifa með. Þau vilja ekkert endilega að þetta sé til þarna úti,“ segir Salvör.

Áhugaverður dómur hafi nýverið verið kveðinn upp í Noregi.

„Það var kona sem var að berjast við barnaverndaryfirvöld. Var með Facebook-síðu og birti alls konar upplýsingar um barnið og í mjög vandasömum aðstæðum og erfiðum, jafnvel grátandi og lýsti líðan barnsins. Hún fékk dóm fyrir að hafa brotið gegn friðhelgi barnsins,“ segir Salvör. 

„Við búum núna í allt öðrum veruleika en áður. Foreldrar gera sér kannski ekki grein fyrir því hvaða áhrif þetta hefur á börn,“ segir Salvör. Mikilvægt sé að þegar fólk tali um börn sín eða birti eitthvað um þau, að staldra við og hugsa hvaða áhrif þetta geti haft á börnin. Þá ættu foreldrar að spyrja börnin hvort þau samþykki að efnið sé birt.

Salvör segir að þegar börn eru komin í grunnskóla séu foreldrar jafnvel búnir að birta þúsundir mynda af þeim.

Jafnframt hefur umboðsmaður gefið út leiðbeiningar til fjölmiðla.

Geta valdið börnum miklum sársauka

„Það er verið að birta oft viðtöl við foreldra sem eru í deilum við barnaverndaryfirvöld eða í deildum hvort við annað. Þau eru að birta myndir af börnunum og jafnvel þó þau séu ekki að birta myndir eða nöfn barnanna þá eru þau að lýsa aðstæðum þeirra, líðan þeirra, hvað þau hafi sagt, hvað þau vilji vera, hvað þau vilji gera, greiningar sem börnin hafa farið í gegnum o.s.frv. Þannig að þetta eru alveg svakalega miklar og viðkvæmar upplýsingar,“ segir Salvör.

„Við höfum heyrt mörg dæmi um börn sem eru í þessum aðstæðum að bara birting með þessum hætti er mjög sársaukafull fyrir börnin og getur valdið einelti í skóla daginn eftir. Þetta eykur vanda barnanna en minnkar hann ekki. Þó að foreldrarnir haldi kannski að þeir séu að gera gott þá á endanum eykur þetta vanda barnanna,“ segir Salvör.

Hér má finna leiðbeiningar umboðsmanns barna fyrir foreldra.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV