Börn eru miskunnarlausir gagnrýnendur

Mynd:  / 

Börn eru miskunnarlausir gagnrýnendur

27.02.2020 - 15:15

Höfundar

Þau Halldór Gylfason og Katla Margrét Þorgeirsdóttir leika nú í nýrri uppfærslu á söngleiknum Gosa í Borgarleikhúsinu. Þau segja boðskapinn í Gosa alltaf eiga erindi við okkur enda sé sagan frábær og höfðar til breiðs hóps.

Athygli vekur að Halldór og Katla Margrét fara með ansi mörg hlutverk í sýningunni – raunar fara þau með öll hlutverkin fyrir utan sjálfan Gosa en hann er leikinn af Haraldi Ara Stefánssyni. Það má því segja að þau séu að vinna fyrir kaupinu sínu í sýningunni. Búningaskiptin taka nokkuð á enda lítill sem enginn tími sem þau hafa til að hvíla sig á milli atriða. 

Aðspurð segja þau að leikritið eigi alltaf erindi við okkur. „Já, það myndi ég nú halda. Að feta beinu brautina og taka góðar ákvarðanir svo manni líður betur í eigin skinni,“ segir Katla Margrét. 

„Þetta er líka bara gott ævintýri og þess vegna á það erindi,” bætir Halldór við. 

Halldór er ekki alveg ókunnur því að leika margar mismunandi persónur úr þekktum ævintýrum en hann fékk við svipað verkefni í Stundinni okkar fyrir þónokkrum árum, það var hins vegar í sjónvarpi og því þurfti hann ekki að vera jafn snöggur að skipta um búninga. 

Katla Margrét segir að helsta vandamálið séu einmitt búningaskiptin. „Þetta eru svokallaðar hraðaskiptingar svo ég hugsa að við munum missa nokkur kíló á næstu mánuðum.”

Að leika fyrir börn er þó ögn öðruvísi en að leika fyrir fullorðna „Það eru mjög einlæg og sönn viðbrögð, þau setja sig ekki mikið í stellingar. Maður veit þegar vel gengur og veit líka þegar eitthvað vantar upp á,” segir Katla Margrét

Halldór tekur undir. „Þau eru mjög miskunnarlaus og maður veit alveg ef þeim leiðist.”

Rætt var við Halldór Gylfason og Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.