Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Börn á ábyrgð félaganna við æfingar og keppni

22.01.2018 - 08:21
Mynd með færslu
 Mynd: Christopher Bruno - Wikimedia Commons
Umboðsmaður barna segir íþróttafélögin bera ábyrgð á þeim börnum sem æfi hjá þeim og keppi fyrir þau. Vont hafi verið að heyra að ekki hafi verið hlustað á sögur ungra stúlkna sem urðu fyrir kynferðislegri áreitni.

Stjórnmálaflokkarnir gangast fyrir sameiginlegum fundi í dag þar sem fjallað verður um næstu skref í baráttunni gegn kynbundinni áreitni. Sýnt verður beint frá fundinum á ruv.is. Fjallað var um fundinn í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þar sagði Salvör Nordal, umboðsmaður barna, meðal annars hryggilegt að ekki hafi verið hlustað á sögur ungra íþróttakvenna sem lýstu fyrir skömmu reynslu sinni.

„Það sem var svo áberandi þar, var að það var ekki hlustað á börnin, það voru ekki lesin skilaboð um vanlíðan hjá börnunum eftir þessi atvik.“

Salvör sagði einnig að íþróttafélögin bæru ábyrgð á börnunum sem þar stundi íþróttir, á meðan börnin eru við æfingar og keppni.

„Auðvitað blasir það við að félögin bera ábyrgð á því starfi sem þau eru með og að tryggja það að börnin séu örugg á þeim tíma sem þau eru hjá þeim. Við erum að treysta þessum félögum fyrir börnunum okkar og þau sem eru komin í afrekshóp eru þarna tímunum saman,“ segir Salvör Nordal.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV