Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Borinn þungum sökum í skýrslu Vigdísar

12.09.2016 - 16:30
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - RÚV
Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, er borinn þungum sökum í skýrslu sem formaður og varaformaður fjárlaganefndar kynntu síðdegis í dag. Steingrímur er sagður hafa afhent kröfuhöfum íslensku bankanna tugmilljarða meðgjöf og látið ríkissjóð taka á sig 296 milljarða króna áhættu í þágu kröfuhafa án þess að fá neitt í staðinn.

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hefur unnið að skýrslunni í marga mánuði og sagði í maí að upphæðirnar sem kröfuhafar hefðu fengið við endurreisn sparisjóðakerfisins bliknuðu í samanburði við þær upphæðir sem þarna hefðu farið á milli. Í skýrslunni kemur fram að hvorki ríkissjóður né Alþingi beri neinn kostnað af gerð hennar.

Í tilkynningu til fjölmiðla segir að skýrslan taki af allan vafa um áhættu skattgreiðenda sem áttu sér stað við seinni einkavæðingu bankanna. Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, hafi tekið fram fyrir hendurnar á FME án lagaheimildar og hafið samningagerð upp á eigin spýtur við hina erlendu kröfuhafa. Með þessu hafi ákvæði neyðarlaganna verið höfð að engu en í staðinn hafi íslensku bankarnir verið færðir kröfuhöfum með tugmilljarða meðgjöf frá skattgreiðendum. 

Í skýrslunni er fullyrt að samningsgerðin hafi alfarið gengið út á að friðþægja kröfuhafana með því að afhenda þeim eignarhald á bönkunum „en varpa samt ábyrgð af endurreisninni á íslenska skattgreiðendur og falla frá tugmilljarða króna arðgreiðslum, endurgreiðslum og vaxtagreiðslum.“

Í skýrslunni er Steingrímur sagður hafa gloprað niður gríðarlegum ávinningi. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi kosið að fara þá leið að byggja endurreisnina ekki á neyðarlögum heldur ganga til samninga við kröfuhafa - útgangspunktur íslensku samninganefndarinnar hafi verið að gefa sér fyrirfram að neyðarlögin myndu ekki halda fyrir dómstólum og mjög langt hafi verið gengið í að friða kröfuhafa gömlu bankanna.

Í tilkynningu til fjölmiðla segir enn fremur að skjöl sýni sérstakt viðhorf samningamanna ríkisins og að ef illa hefði gengið hefði tapið lent á ríkissjóði og þar með skattgreiðendum.

Niðurstaða skýrslunnar er í meginatriðum ósammála niðurstöðum skýrslu sem Brynjar Níelsson skilaði til stjórnsýslu og eftirlitsnefndar Alþingis í febrúar á síðasta ári um svipað málefni. Vigdís hefur reyndar sagt að hún sé ósammála þeirri skýrslu sem var unnin í tengslum við ásakanir Víglundar Þorsteinssonar. 

Brynjar sagði í skýrslu sinni að neyðarlögin hefðu ekki verið margorð um hvernig ætti að standa að mati á yfirfærðum eignum til nýju bankanna og ekki væri lagt bann við því að aðilar semji um verðmæti eignanna og uppgjör vegna þeirra. 

Þá bendir Brynjar á að hefði ríkið farið þá leið að eiga áfram bankana hefði ríkissjóður lagt þeim til allt eigið fé. Ríkið hefði þá þurft að taka að láni allt að 400 milljarða króna á afar lélegum kjörum eins og ástandið var á þeim tíma. „Þótt upphaflega hafi verið gert ráð fyrir að ríkið eignaðist alla bankana og að þeir yrðu síðan gerðir upp við slitabúin með útgáfu á skuldabréfi þá var það ekki gerlegt [...],“ segir í skýrslu Brynjars.

Brynjar sagði enn fremur að ekki væri hægt að fallast á að í samkomulagsleiðinni um skiptingu eigna og skulda hefði verið farið á svig við lög. Enn síður væri nokkuð sem benti til þess að beitt hafi verið með skipulögðum hætti blekkingum og svikum til hagsbóta fyrir erlenda kröfuhafa á kostnað ríkisins og einstakra skuldara.

Mynd með færslu
 Mynd: Beggi - RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV