Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Borgin vill hlutdeild í gistináttagjaldi

10.10.2015 - 11:59
Reykjavík Natura
 Mynd: Morgunblaðið/Ernir Eyjólfsson
Borgarráð Reykjavíkur vill að sveitarfélög fái annaðhvort lagaheimild til að leggja á ferðamannaskatt, eða hluta af gistináttagjaldi. Dagur B. Eggertsson segir að þeir sem verði fyrir kostnaði vegna fjölgunar ferðamanna, ættu að fá tekjur á móti.

 

Það sem við þekkjum hér sem gistináttagjald, er víðast hvar sveitarfélagaskattur, oft kallað city tax. Og við erum í raun að benda á það að það eru ekki síst sveitarfélögin sem bera kostnað af aukinni umhirðu og allskonar álagi semfylgir ferðamönnum. Og þess vegna væri eðlilegt að gistináttagjaldið rynni til sveitarfélaga.

Dagur bendir á að mörg sveitarfélög þar sem mikið er um ferðamenn, fái ekki hlutdeild í skatttekjum sem til verði vegna fjölgunar ferðamanna, svo sem virðisaukaskatti eða gistináttagjaldi. Þetta þurfi að til að sátt ríki um aukinn straum ferðamanna, þurfi þeir sem verði fyrir kostnaði, að fá það að einhverju leyti bætt með tekjum.

Til að breyta þessu, þyrfti að breyta lögum. Dagur telur að það væri þó býsna einfalt.

Það væri hægt að hækka núverandi gistináttagjald og láta hluta þess renna til sveitarfélaganna. Eða segja einfaldlega að núverandi gistináttagjald rynni þangað beint.

Segir Dagur B. Eggertsson.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV