Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Borgin sem við eigum er svo frábær“

11.07.2019 - 22:32
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
„Það er skemmtilegt að segja fólki frá því að það hafi verið fangelsi í stjórnarráðinu,“ þetta segir leiðsögumaður sem í kvöld leiddi hóp spænskumælandi borgarbúa um miðborgina. Reykjavík Safarí, menningarganga á sex tungumálum, fór í kvöld fram í ellefta skipti. 

 

Borgarbókasafnið breyttist í Babel-turn

Það var fjölmenni í anddyri Borgarbókasafnsins í Grófinni áður en gangan hófst, þar hittust allir þátttakendur og fundu sinn leiðsögumann. Í ár var hægt að læra um söfn, styttur og byggingar á litháísku, arabísku, spænsku, pólsku, filippseysku og ensku. Forsvarsmenn göntuðust með að bókasafnið væri orðið einskonar Babel-turn. 

Margir í spænska hópnum

Leiðsögumennirnir buðu gesti velkomna og svo fylgdi hver hópur sínum leiðsögumanni af stað. Spænskumælandi hópurinn var stór, og stækkaði eftir því sem á leið, enda sumir seinir. Þar var fólk frá Síle, Spáni, Hondúras, Venesúela og fleiri löndum.

„Bókasöfnin í okkar löndum eru öðruvísi“

María Sastre leiddi spænskumælandi hópinn, en hún hefur tekið þátt í nokkur skipti. „Það er skemmtilegast að vera með fólkinu og tala við þau, kynna fyrir þeim hluti sem flestir vita ekki, sýna þeim borgina, borgin sem við eigum er svo frábær. Mér finnst gaman að segja frá sögu Íslands, til dæmis því að það hafi verið fangelsi í Stjórnarráðinu, svo líka þegar við erum í Borgarbókasafni að segja frá því að það er ýmislegt starf þar sem þau vita ekki af því bókasafn er öðruvísi í okkar löndum, maður má ekki tala eða gera neitt en hér er mikið menningarstarf í gangi,“ segir Maria. 

Gangan er á vegum Borgarbókasafnsins, Borgarsögusafns og Listasafns Íslands. Að röltinu loknu gæddu gestir sér á veitingum á Borgarbókasafninu í Grófinni og hlýddu á gríska kaffihúsatónlist. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV